Rúmlega þúsund manns vilja Fjarðargöng framyfir Fjarðarheiðargöng

Fjöldi þeirra sem skrifað hafa undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að það verði Fjarðargöng en ekki Fjarðarheiðargöng sem fari í forgang á samgönguáætlun austanlands er nú komin yfir þúsund manns.

Það er Erlendur Magnús Jóhannsson, Mjófirðingur sem búsettur er í Neskaupstað, sem kom af stað undirskriftasöfnun þessa efnis seint í nóvember síðastliðnum. Í viðtali við Austurfrétt á þeim tíma sagði Erlendur að áskorunin snérist alls ekki um gera lítið úr óskum eða vilja Seyðfirðinga með Fjarðarheiðargöngin yfir á Egilsstaði heldur draga saman allar upplýsingar svo stóra myndin sæi dagsins ljós. Liti fólk á skóginn en ekki stöku tré og tré væri einfalt að komast að þeirri niðurstöðu að Fjarðargöng fremur en Fjarðarheiðargöng kæmu mun fleirum betur til góða.

Fyrir ókunnuga þá eru næstu göng á áætlun ríkisins Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða en þau göngin munu verða með þeim allra lengstu í Evrópu eða tæplega fjórtán kílómetra löng alls. Með þeim verður mikil vetrareinangrun Seyðisfjarðar rofin auk þess að opna á mikla möguleika varðandi ferðaþjónustu sem ekki eru til staðar nú.

Hugmynd Erlends, sem aðrir hafa viðrað áður og ítrekað, er að í stað þeirra löngu ganga komi svokölluð Fjarðargöng. Þar er um tvö styttri göng að ræða. Annars vegar frá Seyðisfirði inn í Mjóafjörð og þaðan áfram inn í Norðfjörð. Slík göng rjúfa ekki aðeins vetrareinangrun Seyðfirðinga heldur og Mjófirðinga auk þess að stytta leiðir fjölmargra til Egilsstaða sem státar af eina stóra flugvelli fjórðungsins og er lífæð margra sem ekki fá læknisþjónustu austanlands. Slík göng lengi ferðatíma Seyðfirðinga vissulega um nokkra kílómetra umfram Fjarðarheiðargöng en þau á móti stytta ferðatíma frá Neskaupstað, Eskifirði og Mjóafirði til Egilsstaða og gefi öðrum í Fjarðabyggð færi á að fara öruggari leið að vetrarlagi en yfir Fagradal að sögn Erlends.

Sjálfur segist Erlendur ánægður með þann fjölda undirskrifta sem kominn er. „Ég vissi áður að margir hafa ekki verið sammála þessari röðun gagna á Austurlandi svo fjöldinn kemur kannski ekki á óvart og áskoruninni lýkur ekki fyrr en í byrjun næsta mánaðar. Ég tel víst að margir sjái glögglega að ávinningurinn er meiri fyrir stærri hóp fólks á Austurlandi með Fjarðargöngum en Fjarðarheiðargöngum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.