Rúnasteinn afhjúpaður á Bustarfelli
Rúnasteinn sem fannst í Hofkirkjugarði fyrir rúmu ári verður afhjúpaður til sýnis á Minjasafninu á Bustarfelli síðar í dag. Talið er að steinninn sé í hópi yngri rúnasteina sem fundist hafa hér á landi.Steinninn kom upp úr jörðu þegar verið var að taka gröf í Hofskirkjugarði snemma árs 2018. Þeir sem tóku gröfina veittu honum ekki eftirtekt, en hann varð eftir ofanjarðar þegar mokað var aftur ofan í jörðina.
Þegar hlánaði um vorið var farið að snyrta til í garðinum og við það rak einn þeirra sem þar voru við störf augun í áletrun á steininum. Þeir lögðu steininn á leiði svo lítið bar á meðan þeir hugsuðu um hver næstu skref ættu að verða með steininn.
Hann var afhentur til Minjasafnsins á Bustarfelli í dag og afhjúpaður í dag til sýnis. Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, verður meðal þeirra sem viðstaddir verða afhjúpunina.
HEF
Þórgunnur Snædal, helsti rúnafræðingur Íslendinga, skoðaði steininn fyrr í sumar. Hún telur steininn vera frá 17. eða 18. öld og í hann sé rituð skammstöfunin HEF. Að líkindum sé um legstein að ræða.
„Það er erfitt að lesa út úr þessu því stafurinn í miðjunni, E, er bara með hálfum hring, en ekki heilum eins og hann ætti að vera. Það virðist sem það hafi verið hætt við í miðju kafi. Það er líka erfitt að segja til um aldur steinsins. Þórgunnur giskar á að hann sé frá 17. eða 18. öld, út af því hversu djúp ristan er. Hann gæti líka verið eldri og ekki eyðst því hann var ofan í jörðinni,“ segir Eyþór Bragi Bárðarson, safnstjóri á Bustarfelli.
Í grein Þórgunnar í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá árinu 2000 eru listaðar upp þekkar rúnaristur á steinum og munum á Íslandi. Samkvæmt henni eru þekktar tæplega 60 ristur á legsteinum eða í hellum. Þær dreifast nokkuð jafnt um Norður-, Suður- og Vesturland en aðeins ein þekkt steinrista er á Austurlandi, frá Hofi í Álftafirði. Um þann stein eru til ritaðar heimildir en hann mun vera glataður.
Í grein Þórgunnar kemur fram að íslensku rúnasteinarnir séu flestir frá 15. og 16. öld, 3-4 séu frá 17. öld og álíka margir frá 14. öld.
Vopnfirðingar vilja geta skoðað sínar fornminjar
Ekki er nýtt að fornminjar finnist við Hof en fornleifafræðingar hafa lauslega kannað svæðið. Staðurinn er sögufrægur, hans er einn af lykilbæjunum í Vopnfirðingasögu og þar hefur verið stórbýli og kirkjustaður öldum saman.
Eyþór Bragi segir Vopnfirðinga vera ánægða með að geta haft steininn til sýnis á heimaslóðum. „Það er gaman að hann fái að vera á staðnum. Það er óþarf að allt merkilegt sem finnst fari suður til Reykjavíkur, nema það krefjist sérstakrar vörslu. Okkur veitir ekki af að hafa eitthvað einkennandi hér á okkar svæði sem við getum skoðað,“ segir Eyþór Bragi.
„Það átti sinn þátt í að þeir sem fundu steininn höfðu hljótt um hann að þeir vildu ekki missa hann í burtu. Það hefur ekki reynt á framtíð hans enn, þeir tóku það skýrt fram að þeir væru að gefa hann Minjasafninu á Bustarfelli.
Það er gott að allir Vopnfirðingar geti skoðað hann hér næstu daga, sama hvað gerist í framhaldinu.“