Þórunn Egils: Hvar er byggðastefnan?

thorunn_egilsdottir.jpg
Þórunn Egilsdóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps, segir mesta orku austfirskra sveitarstjórnarmanna fara í að verja grunnstoðir samfélagsins. Hún spurði ráðherra í ríkisstjórn Íslands hvar byggðastefnan væri á ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum á þriðjudag.

„Eins og er - þá er raunveruleiki sveitarstjórnarmannsins sá að mest orka fer í að verja grunnstoðir sveitarfélagsins. Við erum að tala um grunnþjónustu. Hvar er byggðastefnan?“ sagði Þórunn í ávarpi sínum á fundinum sem birt er í heild sinni á vef Vopnafjarðarhrepps.

Heimilisfólkið fær ekki að nota matsalinn

Vopnfirðingar hafa að undanförnu kallað eftir aðgerðum til að fækka, eða útrýma, læknislausum dögum á staðnum. Fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Austurlands hafa verið skorin niður þannig að læknislaust er flestar helgar á sumrin á Vopnafirði.

„Þetta árið verða 18 læknislausir sólarhringar á Vopnafirði. Þeir eiga að spara 1,8 m. Eitt sjúkraflug kostar 500.000. Síðustu helgi var læknislaust, 2 sjúkraflug, eitt andlát, kalla þurfti út hjúkrunarfræðing á bakvakt og lækni frá Egilsstöðum. Vegalengdin í næsta lækni er 135 km. Það tekur mig 1,5 tíma að aka það.“

Þá hafa Vopnfirðingar háð harða baráttu til að halda hjúkrunarheimilinu Sundabúð sem um tíma leit út fyrir að yrði lagt niður. 

„Heimilisfólk fær kvöldmatinn á bökkum, fær ekki að nota matsalinn seinni part dags. Það er of dýrt. Ég gef hundunum mínum á morgnana. Rollurnar fá 2 á dag.“

Hver er að styrkja hvern?

Þórunn segir að gæta þurfi að styrk jaðarbyggða sem næri kjarnana. „Við köllum eftir byggðastefnu. Það sem við förum framá er í raun að grunnþörfum samfélagsins sé örugglega sinnt.Það þýðir að við höfum lækni, lögreglu, fáum að eldast í heimabyggð við mannsæmandi aðbúnað og að samgöngur séu í lagi.

Hættum að tala um styrki til landsbyggðarinnar. Hver er líka að styrkja hvern? Við vitum hvar peningarnir verða til og teljum okkur eiga fyrir þessu öllu. Ef samfélögin eiga að dafna þarf að gæta þess að jaðarbyggðir séu sterkar. Þær næra kjarnana.

Um leið og útstöðvarnar gefa eftir fær miðjan ekki næga næringu og þá vitum við hvað gerist. Nú er lag – vinnum saman að markvissri uppbyggingu í atvinnu- og byggðamálum fjórðungsins.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar