Ruslalúgan gerði út af við Drang

Ekki er enn fyllilega ljóst hvað olli því að smátogarinn Drangur ÁR307 sökk við bryggjuna á Stöðvarfirði að morgni sunnudagsins 26. október síðastliðins. Skipið verður á næstunni flutt til Reyðarfjarðar þar sem það bíður eftir að verða dregið til Evrópu og unnið í brotajárn.

Drangur var hífður upp úr sjónum fimm dögum eftir að hann sökk og hefur síðan legið við bryggju á Stöðvarfirði. Vaktmaður hefur auga með ástandi skipsins og fer um borð í það á hverjum degi.

Enginn leki er á skipinu sem stendur. Ekki er fyllilega ljóst hvað olli því að Drangur sökk í höfninni en Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar tildrög þess. Steinar Sigureirsson, skipstjóri, segir að leki inn um ruslalúgu hafi verið það sem sökkti skipinu endanlega en hún sé ekki byrjunin.

„Það er ekki spáð sérstaklega í þessum lúgum þegar skip liggja við bryggju og hún var opin. Það fer ekkert inn um hana fyrr en báturinn er farinn að halla verulega,“ segir hann.

Drangur hefur verið dæmdur ónýtur. Skrokkurinn er heill en íbúðir áhafnar og öll rafkerfi eru ónýt. Gríðarlega dýrt yrði að gera við skemmdirnar.

Að líkindum verður Drangur dreginn inn á Reyðarfjörð á næstunni en þar er skjólsælla en á Stöðvarfirði. Þar mun skipið bíða þess að veðurfar verði það gott að hægt verði að draga það erlendis þar sem það verður unnið í brotajárn.

„Eftir að báturinn fór niður hefur allt gengið vel og það heppnaðist vel að ná honum upp. Við reynum að vinna hlutina eins hratt og hægt er, það stendur alls ekki til að láta hann liggja þarna árum saman,“ segir Steinar.

Drangur var gerður út á sæbjúgnaveiðar af Aurora Seafood sem keypti hann fyrir rúmu ári. Útgerðin á annan bát, Klett ÍS-808, sem verið er að gera kláran til veiða. Steinar segir annars rólegt yfir sæbjúgnaveiðar vegna minni eftirspurnar og hægari útflutnings, en hvort tveggja eru afleiðingar Covid-19 faraldursins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.