Safna upplýsingum um allar byggingar úr torfi sem enn standa

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hefur forustu um rannsókn sem hrundið hefur verið af stað um viðhorf almennings til torfhúsa. Samhliða rannsókninni er safnað upplýsingum um allar uppistandandi torfbyggingar og þá sem þekkingu hafa á handbragðinu. Stjórnandi rannsóknarinnar segir mikil menningarverðmæti felast í torfhúsnum.

„Í hugum magra eru torfhúsin gömlu torfbæirnir en við leitum að upplýsingum um allar gerðir torfbygginga. Hýbýli jafnt sem útihús, búpeningshús, reykkofa og kartöflugeymslur,“ segir Sigríður Sigurðardóttir, stundakennari við Háskólann á Hólum.

Ferðamáladeildin hefur valið torfhús til rannsóknar um viðhorf til menningararfs því þau varpa ljósi á sérstöðu íslensks menningararfs og erlendir ferðamenn sýna þeim mikinn áhuga.

Auk skólans standa að rannsókninni Minjastofnun, Þjóðminjasafnið, Byggðasafn Skagfirðinga og Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Fyrsti áfanginn er spurningalisti á netinu sem ætlað er að afla upplýsinga um hvaða sess torfhús skipa í hversdagslífi þjóðarinnar, minjavernd, fræðslu og ferðaþjónustu og hvort Íslendingar vilji vernda og nýta þannig hús með öðrum hætti en nú er gert. „Við þekkjum lítið raunverulegt viðhorf almennings til þessa menningararfs, ekki frekar en annars menningararfs,“ segir Sigríður.

Endurnýjuð á tuttugustu öldinni

Þegar talað er um torfhús er átt við byggingar sem að meira eða minna eru hlaðin úr torfi og grjóti. Í rannsókninni er safnað upplýsingum um hvernig þau hafa breyst á síðustu áratugum.

„Þessar byggingar eru sjaldan skráðar sem fornleifar því þær hafa flest verið lagfærðar mikið á 20. öld. Við þekkjum ekki hvernig húsin voru fyrir það en viljum vita það sem og hvaða byggingarefni voru reynd á þeim,“ segir Sigríður.

Hún bendir á að bærinn að Galtastöðum fram í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði sé gott dæmi um hús sem fengið hafi slíka yfirhalningu. „Það er magnað dæmi um sambýli nýja og gamla tímans því það var byggt mikið við það á 20. öldinni.“

Einn angi rannsóknarinnar snýst um að kortleggja þau torfhús sem enn standa. Mikið vantar upp á heildstæðar upplýsingar um þau. „Það kunna að vera mikil verðmæti í þeim kofum sem enn standa og eru óskráðir. Við vitum til dæmis lítið sem ekkert um stöðuna á Austurlandi.“

Að varðveita þekkinguna

Þriðji hlutinn að þessu sinni snýst um að afla upplýsinga um þá sem enn kunna þá lista að hlaða úr torfi og grjóti. „Á þeim byggist varðveisla húsanna í framtíðinni,“ segir Sigríður.

Hún bendir á að torfbyggingum hafi fækkað hratt síðustu 25 ár, svo mjög að hending sé ef þær standi enn. Hún segir mikilvægt að vernda þau til að byggingarlistin glatist ekki. Nauðsynlegt sé að líta á reynslu annarra þjóða sem víti til varnaðar.

„Það að geyma torfhúsin fyrir framtíðina til að þekkja aðferðina því þau verða ekki byggð í framtíðinni. Skotar og Írar töpuðu þekkingunni alveg og sækja nú upplýsingar til okkar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar