Safnað fyrir 800 manna veislu á 2 dögum: „Eid er eins og okkar jól”

Þórunn Ólafsdóttir frá Fáskrúðsfirði sem starfar sem sjálfboðaliði í flóttamannabúðum í Grikklandi hélt Eid veislu í fyrir um 800 flóttamenn í síðustu viku.


Framlög frá Íslandi sem Þórunn aflaði í gegnum Akkeri tryggðu að flóttafólkið gat fagnað Eid sem er ein stærsta hátíð múslima og er haldin við lok föstumánaðarins Ramadan. „Eid er eins og okkar jól,” segir Þórunn, „Þetta er hátíð fjölskyldunnar og hún er erfið þegar ekkert er eins og það á að vera. Ég veit að allir sem hafa upplifað stórhátíðir eftir missi eða við erfiðar aðstæður geta á einhvern hátt tengt við kvíðann og sorgina sem þær valda þeim sem af mörgum og ólíkum ástæðum eru ekki í aðstöðu til að njóta.”

Þórunn er stofnandi hjálparsamtakana Akkeris og er formaður þeirra en samtökin hafa það markmið að hjálpa fólki á flótta. Með því að safna fyrir hátíðarhöldunum vildi Þórunn gera fólkinu kleift að gleyma sér í augnablik. „Auðvitað er það forgangsatriði að koma fólki í öryggi. En af öllu sem haft hefur verið af fólkinu hérna þá fannst mér mikilvægt að þau fengju tækifæri til að fagna Eid.”

Þórunn setti færslu á facebook aðeins tveimur dögum fyrir hátíðina þar sem hún viðraði hugmynd sína um að halda veislu þar sem fólkið í flóttamannabúðunum gæti gleymt stund og stað í augnablik. Hún hafði samband við veisluþjónustu nærri flóttamannabúðunum og með framlögum frá Íslandi, einkum frá einstaklingum, tókst að gera hugmyndina að veruleika.

Þórunn segir hátíðarhöldin hafa heppnast vel „Það var enginn flóttamaður þarna, við vorum bara öll fólk. Vonandi tókst einhverjum að gleyma erfiðum aðstæðum um stund. Ég vona innilega að þessi kvöldstund hafi náð að kveikja einhverja von í hjörtum fólks um að lífið geti orðið bærilegt aftur og ég er þeim sem styrktu framtakið innilega þakklát. Svona getur samstaðan búið til eitthvað fallegt."

 

Eid2

Séð yfir hátíðarsvæðið.

Eid3

Boðið var uppá hefðbundin sýrlenskan mat.

Eid4

Undirbúningur í fullum gangi. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.