Samdráttarmet sett á Hringveginum á Austurlandi
Umferðin á Hringveginum á Austurlandi minnkaði um tæp 37% í október miðað við sama mánuð í fyrra. Er þetta mesti samdráttur milli ára í sögunni á Austurlandi. Á landsvísu minnkaði umferðin um Hringveginn um 21,5% milli ára í október sem er einnig samdráttarmet og þrefalt meira en fyrra met milli áranna 2010 og 2011.Þetta kemur frá á vefsíðu Vegagerðarinnar. Þar segir að útlit sé fyrir að í ár verði um 13 prósenta samdráttur í umferðinni á Hringveginum eða tvöfalt meiri en áður hefur mælst.
Mesti samdráttur í heild, milli október mánaða fram til þessa, var milli áranna 2011 og 2010 en þá varð 6,7% samdráttur.
Af einstaka stöðum þá dróst umferð mest saman á Mýrdalssandi eða um rúmlega 76%, sem er nýtt met í samdrætti fyrir einstaka talningastaði. Áætlað er að umferð muni dragast saman í kringum 55% um Mýrdalssand fyrir árið í heild, sem yrði mesti samdráttur fyrir einstaka stað á Hringveginum í sögunni.
Af öðrum landshlutum má nefna að á Norðurlandi nam samdrátturinn 38%, á Suðurlandi 32% og á Vesturlandi 29%. Á höfuðborgarsvæðinu var samdrátturinn tæp 13%.