Sameining prestakalla stærsta viðfangsefnið
Séra Sigríður Rún Tryggvadóttir var í gærkvöldi sett í embætti prófasta á Austurlands við kvöldmessu í Seyðisfjarðarkirkju. Við Sigríði tekur strax krefjandi verkefni við að leiða sameiningu fimm prestakalla á Austfjörðum í eitt.„Það eru spennandi tímar framundan í prófastsdæminu. Fjórir prestar láta á næstu mánuðum af störfum vegna aldurs og ákveðið hefur verið að sameina prestaköll þeirra í eitt.
Ég byrja því alls ekki með tærnar upp í loft,“ segir Sigríður Rún.
Samkvæmt samþykkt Kirkjuþings frá í mars verða Djúpavogs-, Heydala-, Kolfreyjustaðar-, Eskifjarðar- og Norðfjarðarprestaköll í Austurlandsprófastsdæmi sameinuð í eitt prestakall sem mun bera heitið Austfjarðaprestakall.
Ákveðið hefur verið að Jóna Kristín Þorvaldsdóttir á Fáskrúðsfirði verði sóknarprestur hins nýja prestakalls en ráða þarf fjóra aðra presta til starfa. Að ýmsu öðru verður að hyggja við sameininguna. „Við Jóna Kristín leiðum þessa vinnu í nánu samstarfi við sóknarnefndirnar.“
Mætt kröfum um vinnuumhverfi og þjónustu
Með sameiningunni er fylgt eftir stefnu Þjóðkirkjunnar um að fækka einmenningsumdæmum. Fyrirmyndin er Egilsstaðaprestakall sem Sigríður Rún hefur starfað í síðan hún kom austur til Seyðisfjarðar árið 2013. Í því eru þrír prestar sem skipta með sér verkum í stað þess að áður þjónaði hver prestur afmörkuðu landssvæði.
Sigríður Rún telur þá breytingu hafa gefist vel. „Sameiningin felur í sér meiri samvinnu presta. Með þessu fyrirkomulagi er ekki verið að minnka þjónustu eða spara heldur er verið að mæta kröfum samtímans bæði um vinnuumhverfi presta og þjónustu þeirra.
Fólk á eftir að venjast því að það sé ekki lengur bara með sinn prest. Á Austfjörðum eru prestar sem hafa þjónað lengi. Fólk þekkir sinn prest og veit hvað það hefur þannig það fylgir alltaf ákveðið óöryggi breytingum. Við finnum samt fyrir mikilli jákvæðni, enda hefur verið haft samráð við heimafólk um þessa ákvörðun, þetta er ekki bara skipun að ofan.
Við þrjú sem höfum þjónað í Egilsstaðaprestakalli erum prestar alls svæðisins. Reynsla okkar af sameinuðu prestakalli er mjög góð. Það gefur okkur mikið að starfa í teymi og við náum að halda uppi góðri þjónustu,“ segir Sigríður Rún.
Héraðsfundur á Eiðum
Hún tekur við embætti prófasts af sr. Davíð Baldurssyni, sem verið hefur prófastur alls Austurlands eftir sameiningu Múlaprófastsdæmis og Austfjarðaprófastsdæmis árið 2011. Biskup Íslands skipar í embættið að fengnum umsögnum úr umdæminu en segja má að prófasturinn sé verkefnisstjóri Þjóðkirkjunnar á Austurlandi.
Um helgina var einnig haldinn héraðsfundur á Eiðum. Hann er árlegur fundur sókna þar sem þær gera grein fyrir störfum sínum en einnig er rætt um störfin innan prófastsdæmisins. Sigríður segir að þar hafi borið hæst prófastsskiptin og sameining prestakallana.
Frá héraðsfundinum. Sigríður Rún er lengst til vinstri. Mynd: Jónas Þór Jóhannsson