Sameining samþykkt með yfirburðum

Íbúar í Fjarðabyggð og Breiðdalsvík samþykktu í dag sameiningu sveitarfélaganna í kosningu með afgerandi kosningu. Tæp 87% sögðu já í Fjarðabyggð en 85% í Breiðdalsvík.

Alls greiddu 1203 atkvæði í Fjarðabyggð, þar af 1035 eða 86,76% já. 158 eða 13,24% sögðu nei. Tíu seðlar voru auðir eða ógildir. Á kjörskrá voru 3322 og kjörsókn því 36,2%.

Yfirkjörstjórn sveitarfélagsins var á Eskifirði og þar lágu úrslit fyrir rétt fyrir miðnætti. Kjörsókn var fremur dræm framan af degi, aðeins höfðu rúm 5% kosið í hádeginu en hún glæddist eftir sem leið á daginn.

Talningu í Breiðdalshreppi lauk um klukkan hálf ellefu. Þar greiddu 100 atkvæði og sögðu 85 þeirra já. 14 sögðu nei en einn seðill var auður. Á kjörskrá voru 155 og kjörsókn því 64,5%.

Kosið verður til sveitastjórnar í sameinuðu sveitarfélagi þann 26. maí næstkomandi.

Kjörsókn í Fjarðabyggð eftir svæðum:

Eskifjörður: 30,2%
Fáskrúðsfjörður: 37,5%
Norðfjörður og Mjóifjörður: 39,8%
Reyðarfjörður 33,2%
Stöðvarfjörður 51,7%

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar