Sameiningar: Horfa verður eftir íbúðum fyrir eldri borgara í öllum byggðarlögum
Stjórnendur nýs sameinaðs sveitarfélags Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar þurfa fljótt að móta sér stefnu í þjónustu við aldraða íbúa, sem sífellt fjölgar í byggðarlögunum, verði sameining sveitarfélaganna samþykkt. Heimastjórnir, skólamál og félagsheimilið Fjarðarborg voru Borgfirðingum ofarlega í huga á íbúafundi um sameininguna á fimmtudagskvöld.„Fjarðarborg verður aldrei seld héðan í burtu,“ sagði Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, þegar hann var spurður út í hvort til greina kæmi að félagsheimili Borgfirðinga kynni að verða selt eftir að hreppurinn sameinaðist. Róbert Ragnarsson, ráðgjafi samstarfsnefndar sameiningarinnar, benti á að enn væru ellefu félagsheimili í Sveitarfélaginu Skagafirði, 20 árum eftir tilurð þess.
Íbúafundurinn á Borgarfirði var sá fjórði og síðasti röðinni í fundaröð samstarfsnefndarinnar. Spurningar Borgfirðinga voru um margt líkar spurningum mögulegra sveitunga þeirra á Djúpavogi, Seyðisfirði og jafnvel Héraði. Þær lutu að valdi heimastjórna, áframhaldandi forræði yfir mikilvægum málaflokkum og varhug við að fjöldinn á Fljótsdalshéraði muni í raun stjórna því hvað gert verður í nýju sveitarfélagi.
Störf og þjónusta
Vinsælasta spurning kvöldsins snéri að hvort störfum yrði dreift út til jaðarbyggða innan nýs sveitarfélags. Áþekkra spurninga var spurt á fleiri fundum og svarað sem fyrr á þann hátt að nýtt sveitarfélag muni bæði auglýsa störf án staðsetningar en líka auglýsta störf til að tryggja að afgreiðslustöðvar þess verði ekki bara með einum starfsmanni. „Það velkist enginn í vafa um að störfin sem eru nú til staðar á þessum stöðum verða það áfram“ sagði Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.
Spurning um gjaldskrá hafnar og afgreiðslutíma var svarað á þann hátt að heimastjórn myndi alltaf veita umsögn um gjaldskrá þótt endanleg afgreiðsla væri lögum samkvæmt í höndum sveitarstjórnar. Þótt sameiginlegur hafnarsjóður verði til hafi hafnirnar mismunandi áherslur.
Spurningu um hvort áfram yrði leikskóli á Borgarfirði, þótt á honum sé bara eitt barn í dag, var svarað með að lagt væri upp með að þar yrði áfram leikskóli. Ekki sé hægt að sameina skóla eða skrifstofur miðað við þær fjarlægðir sem séu milli byggðakjarnanna. Björn Ingimarsson, formaður samstarfsnefndarinnar og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, ítrekaði að við þessa sameiningu hefði verið reynt að læra af erfiðleikum annarra sameininga sveitarfélaga þar sem jaðarsvæði hefðu misst áhrif sín.
Róbert sagði að ótti við að sá stærsti í sameiningunni fengi allt væri skiljanlegur. Dæmi væru þó um það gagnstæða. Stærsta verkefni Skagfirðinga um þessar mundir væri hitaveita í dreifbýli og nær allur vöxtur Reykjanesbæjar væri í landi Njarðvíkur.
Skoða þarf öldrunarþjónustu á öllum stöðum
Á fundinum á minni stöðunum var nokkuð spurt út í öldrunarþjónustu. Borgfirðingar vildu vita hvort hugað yrði fyrir öldrunarþjónustu á staðnum þannig að fólk ætti kost á sérhæfðu húsnæði. Björn svaraði því til að Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur og Fljótsdalshreppur stæðu þegar saman að byggðasamlaginu Ársölum sem ætlað væri til að bjóða upp á leiguhúsnæði fyrir eldri borgara.
Uppbygging þessarar þjónustu hefði þegar verið rædd í stjórn samlagsins en án niðurstöðu. Félagið hefði skoðað eignir en þær hækkað of mikið í verði til að samlagði treysti sér í þær. Björn kvaðst taka undir að það yrði áhyggjuefni sem slíkt húsnæði yrði aðeins skoðað á Egilsstöðum. „Það verður að horfa á framboð á þessu húsnæði á öllum stöðunum.“
Jafnvel samningar í þvinguðum sameiningum
Ef sameiningin verður samþykkt í kosningunum þann 26. október verður ekki kosið í sveitarstjórn nýs sveitarfélags fyrr en eftir um hálft ár. Núverandi sveitarstjórnir þurfa að samþykkja fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár og sinna daglegum rekstri. Þær geta hins vegar ekki tekið nýjar ákvarðanir, umfram þær sem þegar eru í áætlunum, sem binda nýtt sveitarfélag nema með samþykki allra hinna sveitarstjórnanna.
Fyrsta umræða um tillögur samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra um að lágmarksstærð sveitarfélaga verði 1000 manns frá árinu 2026 og 250 strax árið 2022 fór fram á Alþingi sama dag og fundurinn. Það þýðir að sveitarfélög verði að líkindum sameinuð með lögum. Spurt var út í þvingaðar sameiningar og hvort þrýstingur um lágmarksstærð hefði haft áhrif á viðræðurnar.
Jakob minnti á að viðræður sveitarfélaganna hefðu hafist áður en ráðherra birti sínar tillögur. Betra væri að sameinast með samningum en lögum. „Það væri það versta, bæði fyrir kjörna fulltrúa og íbúa.“
Róbert rifjaði upp að íslensk sveitarfélög hefðu nokkrum sinnum verið sameinuð með lögum. Í fyrsta lagi hefði verði kveðið á um lágmarksstærð upp á 50 íbúa, dæmi væru líka um tæknileg gjaldþrot sveitarfélaga. Í öllum tilfellum hefðu íbúar fengið að fara í gegnum einhvers konar viðræður og greiða atkvæði. „Það hefur verið unnið með heimamönnum og þeim leyft að kjósa. Það skiptir verulegu máli að fólkið upplifði að það hefði átt hlut að máli. Það er vilji til að fólk haldi reisn sinni. Það yrði sérstakt ef komið yrði með sveit manna að sunnan til að knýja í gegn sameiningu.“
Áhrif minni- og meirihluta í heimastjórnum
Mestu áhrif minni byggðarlaganna eftir sameiningu verða í gegnum heimastjórnir, þriggja manna nefndir í hverju núverandi sveitarfélaga. Tveir fulltrúar verða kosnir beint af íbúum svæðisins en sá þriðji skipaður úr sveitarstjórn. Spurt var hvort ekki væri hætta á að slíkur fulltrúi hefði mismunandi vægi eftir hvort hann kæmi úr minni eða meirihluta.
Björn sagði að niðurstaða umræðna hefði verið sú að betra væri að vera með heimastjórn ekki alfarið skipaða heimafólki. Undir það tók Jakob. Björn bætti við að hans reynsla væri sú að loknu fyrsta árinu frá sveitastjórnarkosningum gleymdu menn flokkalínunum og ynnu saman að stóru málunum, þótt þeir körpuðu stundum um smámál í beinum útsendingum. Gauti spurði hví meirihlutinn myndi skipa fulltrúa minnihluta í nefnd sem hefði jafn mikil völd og heimastjórnirnar. Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, tók undir áhyggjur af því að flokkapólitíkin gæti þvælst fyrir. Hún hefði ekki reynslu af því að friður kæmist á eftir fyrsta árið.
Ekki trú á kúvendingum frá tillögum
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur 1,4 milljarða króna til sameiningarinnar, þar af 560 milljónir í niðurgreiðslu skulda. Borgarfjarðarhreppur er í dag skuldlaust sveitarfélag. Þá hefur verið áætluð fjárfestingaþörf sveitarfélaganna, meðal annars miklar veituframkvæmdir, sem ekki þarf á Borgarfirði. Spurt var hvort Borgfirðingar töpuðu á að skulda lítið og vera með sín veitumál á hreinu.
Róbert benti á þótt þessi mál væru í lagi á Borgarfirði væru önnur mál sem þarf þyrfti að ráðast í. Fjárfestingar í götum, gangstéttum, höfninni og íbúðum á Borgarfirði væru metnar á 250 milljónir. „Þeir sem skulda minna eiga eftir að fara í meiri framkvæmdir. Fljótsdalshérað hefur haft burði til að taka lán en borgar skuldir sínar hratt niður. Hin sveitarfélögin eiga í meiri erfiðleikum með að fjármagna sem þau fara í. Þau eiga eftir að skulda meira.“
Á íbúafundunum settu fulltrúar samstarfsnefndarinnar gjarnan þann varnagla að þótt tillögur lægju fyrir nú væri svo að ný sveitarstjórn hefði síðasta orðið um hverju yrði framfylgt. Gagnrýni kom fram á að hún væri óbundin, fyrri hefði þurft að liggja sameiningarsáttmáli.
Þeir fulltrúar nefndarinnar sem svöruðu spurningunni lýstu því að þeir yrðu mjög undrandi eftir þá vinnu sem hefði verið unnin í samtarfsnefndinni og starfshópum hennar að kúvending yrði frá tillögunum, þótt ný sveitarstjórn, væri eins og aðrar, óbundin af ákvörðunum forrennara sinna. „Þetta er afrakstur nefndarinnar, sex starfshópa og íbúafunda. Ég trúi ekki að ný sveitarstjórn komi til með að leggja til að Fjarðarborg yrði seld,“ sagði Jakob.