Sameiningarmál: Skuldir tvöfaldast á hvern íbúa utan Héraðs
Skuldir aukast á hvern íbúa í Seyðisfjarðarkaupstað, Borgarfjarðarhreppi og Djúpavogshreppi verði af sameiningu þeirra við Fljótsdalshérað í lok mánaðarins. Á sama tíma á að aukast svigrúm til framkvæmda á stöðunum sem haldið hefur verið aftur af. Fjármál sameinaðs sveitarfélags, almenningssamgöngur og þjónusta við íbúa var meðal þess sem tekið var fyrir á íbúafundi um sameininguna á Djúpavogi í gærkvöldi.Skuldir á hvern íbúa á Djúpavogi eru í dag 905.000 þúsund en myndu tvöfaldast eða verða rétt rúmar tvær milljónir króna við sameininguna, að því er fram kemur í skýrslu RR ráðgjafar sem starfað hefur fyrir samstarfsnefnd sveitarfélaganna. Skuldaviðmið Djúpavogshrepps í dag er 30% en í sameinuðu sveitarfélagi færi það upp í 113%. Ástæðan eru miklar skuldir stærsta sveitarfélagsins, Fljótsdalshéraðs.
Á móti er áætlað að þörf á fjárfestingum og viðhaldi, umfram það sem þegar hefur verið sett fram í fjárhagsáætlunum, sé yfir 1,3 milljónir króna í Djúpavogshreppi og hærri á Seyðisfirði og Djúpavogi. Sú tala er ekki nema 200.000 fyrir Fljótsdalshérað og rúm 530 þúsund á íbúa í sameinuðu sveitarfélagi.
Skulda viðhald eftir aðhald
Íbúar á Djúpavogi spurðu þó nokkuð út í fjármál, einkum skuldir, sameinaðs sveitarfélags, meðal annars hvort rétt væri að sameinast á þeim tímapunkti sem sveitarfélagið væri á ný að ná vopnum sínum í atvinnumálum eftir erfið ár og hvort reynt væri að fegra stöðuna til að afla fylgis við sameininguna. Þá var einnig spurt hver staða hreppsins yrði ef sameinigin yrði felld en boðuð lágmarksstærð sveitarfélaga lögleidd innan fárra ára.
„Hefði það verið raunin að við hefðum ráðið ráðgjafana til að láta hlutina líta vel út þá hefði ég kosið að þeir settu það ekki á fyrstu glærur að skuldir á hvern íbúa myndu tvöfaldast. Við höfum ekki reynt að draga fjöður yfir stöðuna en reynt að útskýra hvers vegna hún er svona.
Rekstur Djúpavogshrepps undanfarin ár hefur verið mjög varfarinn. Við höfum vanáætlað tekjur um 6-10% í fjárhagsáætlun hvers árs meðan gjöldin hafa verið upp á 98-99%. Við höfum greitt niður skuldir en það hefur ekki verið svigrúm til að fara í neinar stórkostlegar framkvæmdir eða lántökur. Sú geta eykst með sameinuðu sveitarfélagi,“ sagði Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi.
Páll Björgvin Guðmundsson frá RR ráðgjöf, útskýrði að tölurnar í skýrslunni væru út frá áætlunum sveitarfélaganna, auk þess sem lagst hefði verið mögulega viðbótar þörf á fjárfestinum. „Það verður að horfa á skuldirnar í samhengi við aðrar tölur. Það liggur skýrt fyrir að hér er töluverð þörf fyrir fjárfestingar og viðhald sem ekki hefur verið bókfært í þeim ársreikningum sem við skoðuðum. Skuldirnar eru 905 þúsund á íbúa í dag, en þið skuldið samfélaginu um 1,3 milljónir sem þið skuldið samfélaginu í viðhaldi. Samanlagt eru þetta um 2,2 milljónir.“ Páll Björgvin kom einnig inn á að rekstrarafgangur sameinaðs sveitarfélags myndi aukast hratt því skuldir yrðu greiddar hratt niður.
Betra að sameinast þegar staðan er góð
Gauti rifjaði upp aðdraganda sameiningarkosningarinnar, að í fyrsta lagi hefðu íbúar lýst vilja sínum til að láta á þær reyna í skoðanakönnun í byrjun síðasta árs, síðan hefðu bæði framboði á Djúpavogi talað fyrir þeim. „Ef einhverjum finnst ekki réttur tími til að sameinast þegar staðan er góð, er þá rétt að sameinast þegar staðan er slæm? Þá komum við samningsstöðunni. Mér er til efst að við hefðum fengið sama hljómgrunn í viðræðuferlinu ef við værum komin með bakið upp að vegg og spurning væri ekki hvort við sameinuðumst heldur hverjum okkur yrði úthlutað.
Róbert Ragnarsson hjá RR ráðgjöf sagði að ef sameiningin yrði felld þá héldu sveitarfélögin áfram að starfa sér, að minnsta kosti til 2026 þegar lagt er til að að lágmarksstærð sveitarfélaga verði 1000 íbúar. „Það er erfitt að segja með samningsstöðuna. Það er betra að fara inn í samninga í styrk en neyð.“
Hann svaraði einnig spurningu um hvort hægt væri að kljúfa byggðarlag aftur út úr sameiningu að henni lokinni að engin heimild væri fyrir slíku í lögum. Slíkt hefði hins vegar verið heimilað með sérlögum, svo sem þegar Egilsstaðakauptún var stofnað fyrir rúmum 70 árum.
Ekki sama þjónustustig alls staðar
Fundurinn var sá þriðji í röð íbúafunda. Hinir fyrstu voru á Egilsstöðum og Seyðisfirði en sá síðasti verður á Borgarfirði í kvöld klukkan 18:00. Á fundunum er bæði hægt að spyrja í gegnum vefsíðu og úr sal. Fundurinn á Djúpavogi var frábrugðin þeim fyrstu tveimur á þann hátt að spurningarnar komu nær allar í gegnum kerfið en nær engin úr salnum.
Hægt er að greiða atkvæði með spurningum í kerfinu og þannig forgangsraða spurningum. Sú spurning sem fékk flest atkvæði í gærkvöldi snéri að því hvort sama þjónustustig yrði í öllum byggðakjörnum nýs sveitarfélags. Eins var spurt um almenningssamgöngur milli byggðakjarna og þjónustu við eldri borgara.
„Það verður ekki undan því vikist að gangast við því að þjónustustig verður ekki hið sama. Það helgast af stærð og aðstæðum staðanna. Það væru fleipur að halda því fram að fljótlega yrði byggð sundlaug á Borgarfirði. Það sem þarf að gerast fljótlega er að þjónustustigið endurspeglist í gjaldskránum,“ sagði Gauti.
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna, bætti við að grunnþjónustan ætti að vera hin sama á öllum stöðunum, í öllum byggðakjörnunum verði afgreiðslur nýs sveitarfélags, þjónustumiðstöðvar og leik- og grunnskólar.
Þá kom Gauti inn á að stærra og sterkara sveitarfélag ætti að vera betur í stakk búið að þjónusta ört stækkandi hóp eldri borgara. „Það er ljóst að í hönd eru að fara tímar varðandi eldri borgara sem við höfum ekki séð.“
Björn sagði erfitt að svara því hvernig almenningssamgöngurnar yrðu. Verið væri að skoða fyrirkomulag þeirra á Austurlandi í heild undir merkjum SvAust og að þær yrðu gjaldfrjálsar. Hann sagði einnig að almenningssamgöngurnar réðust meðal annars hvernig gengi að fá nýjan veg yfir Öxi.
Nýr vegur yfir Öxi og göng undir Fjarðarheiði hafa verið áherslumál samstarfsnefndarinnar, sem meðal annars fundaði með samgönguráðherra í síðustu viku. „Eftir að hafa setið fundi með ráðherra og miðað við viðbrögð úr stjórnkerfinu á þessari vegferð, tel ég fulla ástæðu til að ætla að vegurinn yfir Öxi verði boðinn út á næsta ári. Það er vonum seinna, ég flutti hingað árið 2001 og var sagt að vegurinn yfir Öxi kæmi árið eftir.“
Styrkur að ná samtali yfir svæðið
Líkt og á fyrri stöðunum tveimur var spurt út í fulltrúa annarra svæða en Fljótsdalshéraðs í sveitastjórn sameinaðs sveitarfélags og fulltrúa í svokölluðum heimastjórnum. Í þeim verða tveir fulltrúar kosnir beinni kosningu af viðkomandi svæðum auk eins fulltrúa úr sveitarstjórn. Það geta orðið sömu fulltrúarnir, sami einstaklingur getur gefið kost á sér á framboðslista og lýst yfir vilja sínum til að sitja í heimastjórn. Samkvæmt lögum má þó ekki einstaka bæjarfulltrúa við svæði. Björn sagði ekki endilega slæmt að þriðji fulltrúinn úr heimastjórninni kæmi að. „Þetta getur verið spurning um að við einöngrum okkur ekki heldur náum samtali yfir svæðið.“
Önnur algeng spurning snýr að stöðugildum á skrifstofunni í hverju sveitarfélagi. Gauti sagði að á skrifstofu Djúpavogshrepps í dag væru 3,5 stöðugildi og ekki gert ráð fyrir að þeim fækkaði. Eðli starfanna gæti hins vegar breyst og starfsmenn sérhæft sig meir. Hann ítrekaði vilja sinn til þess að störf yrðu auglýst með ákveðinni staðsetningu til að halda uppi lágmarksstarfsmannafjölda á núverandi hreppsskrifstofum.
Ekki verið að sameina íþróttafélög
Djúpivogur tilheyrir Cittaslow-hreyfingu. Gauti sagði aðspurður í gærkvöldi að sú vottun stæði óhögguð þótt sveitarfélagið sameinaðist. Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði, sagðist telja líklegra að fleiri byggðakjarnar nýs sveitarfélags myndu sækjast eftir að fylgja fordæmi Djúpavogsbúa og hljóta vottunina.
Spurt var út í breytingar á starfsemi íþróttafélaga sem ekki stendur til að gera breytingar á. „Það er verið að sameina stjórnsýsluna, ekki björgunarsveitir, kvenfélög eða íþróttafélög,“ sagði Hildur.
Þá var spurt út í aukna menntunarmöguleika, bæði á háskóla- og framhaldsskólastigi, með nýju sveitarfélagi. Hildur sagði stofnun háskólaseturs á Austurlandi, sem unnið er að með Háskólanum á Akureyri, eitt stærsta hagsmunamál fjórðungsins.
Jón Þórðarson, sveitarstjóri á Borgarfirði, sagði styttingu framhaldsskólanáms í þrjú ár að meðaltali hafa kostað austfirsk sveitarfélög heilan árgang. Uppbygging þekkingariðnaðar væri grundvallarmál fyrir þróun á Austurlandi næstu 10-20 ár.