„Samfélagið hefur borið okkur á höndum sér“

Kvikmyndafyrirtækið Pegasus, sem er meðframleiðandi sjónvarpsseríunnar Fortitude, afhenti samfélagsstyrki á Reyðarfirði í gær að andvirði einni milljón króna.


Framleiðendur Fortitude síriunar veittu leikskólanum Lyngholti 500 þúsund krónur til kaupa á þroskaleikföngum og Hollvinafélagi utanspítalaþjónustu í Fjarðabyggð 500 þúsund krónur upp í kaup á hjartahnoðtæki. Eftir tökur á fyrri þáttaröðinni var Grunnskólanum á Reyðarfirði veitt ein milljón króna í styrk til kaupa á spjaldtölvum.

„Hér hafa allar dyr staðið opnar“

„Það er algerlega einstakt hve gott og þægilegt hefur verið að dvelja hérna og samfélagið hefur borið okkur á höndum sér. Hér hafa allar dyr staðið okkur opnar – fólk hefur gengið úr húsunum sínum fyrir okkur og hjálpað til með öðrum hætti, bæjarstjórnin hefur reynst okkur vel sem og slökkviliðið.

Fyrir þetta erum við ákaflega þakklát og segja má að það sé kveikjan að þessum styrkjum, en við viljum borga velvildina til baka og skilja eitthvað eftir okkur til samfélagslegra verkefna,“ segir Snorri Þórisson, aðaleigandi Pegasus í samtali við Austurfrétt.

Snorri segir það skipa höfuðmáli að vera í góðu sambandi við heimamenn í slíkum verkefnum. „Við höfum einnig lagt okkur fram við að sýna fulla virðingu og vera með eins lítinn yfirgang og hægt er. En, hingað ryðjast 150 manns sem eru í hálft ár í senn með fjölmarga trukka, þannig að það verður alltaf óhjákvæmilegt rót í ekki stærra samfélagi.

Á móti skiljum við eftir okkur háar fjárhæðir í allra handa þjónustu sem kemur sér ágætlega fyrir samfélagið, sérstaklega yfir vetrartímann þegar ferðamennskan er ekki mikil.“

Snorri segir að mikill áhugi sé fyrir því að halda þáttaröðinni áfram. „Það kemur þó ekki í ljós fyrr en í lok apríl á næsta ári hvað verður, fer eftir viðtökum á þeirri seríu sem verið er að vinna núna. Eins og málin standa geri ég þó fastlega ráð fyrir því að við höldum áfram.“

Samfélagsgjöf Pegasus

 

Ljósmyndir:

Snorri Þórisson, framkvæmdastjóri Pegasus og Ingólfur Birgir Bragason frá Hollvinafélagi utanspítalaþjónustu í Fjarðabyggð.

Snorri Þórisson, framkvæmdastjóri Pegasus og Elín Guðmundsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Lyngholti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.