Samfylkingin fengi fyrsta þingmanninn miðað við nýjan þjóðarpúls
Samfylkingin mælist stærst í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem kannar fylgi stjórnmálaflokka í Norðausturkjördæmi. Framsóknarflokkurinn gefur eftir í jafnri baráttu um þingsæti en Viðreisn sækir áfram í sig veðrið.Könnunin byggir á 231 svari, sem er meira en helmingi minna úrtak heldur en í þjóðarpúlsinum sem gerður var í gegnum allan októbermánuð. Austurfrétt hefur aðgengi að niðurstöðunum í gegnum samstarf við RÚV.
Nokkrar breytingar virðast á fylgi á þessum tíma. Sósíalistar virðast tapa miklu fylgi og eru að þessu sinni töluvert fjærri þingsæti. Píratar, Miðflokkur og Vinstri græn bæta við sig fylgi en Flokkur fólksins og Samfylking tapa. Þær hreyfingar eru í heildina séð ekki miklar og hafa ekki áhrif á röðun eða þingsæti að verulegu leyti.
Stærstu tíðindin eru hins vegar þau að Framsóknarflokkurinn tapar fylgi og Viðreisn bætir áfram við sig. Þótt sveiflan sé ekki mikil, þýðir hún að Viðreisn fer upp fyrir Framsókn í röðun þingsæta.
Miðað við níu kjördæmakjörna þingmenn fengi Samfylking, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur tvo en Framsókn, Viðreisn og Flokkur fólksins einn. Samfylkingin á næsta þingmann inn. Í útreikningum Austurfréttar er hann sýndur sem tíundi þingmaðurinn, en rétt er að taka fram að það sæti er jöfnunarþingsæti og getur því endað nánast hvernig sem er út frá úrslitum á landsvísu.
Lítill munur er á þriðja þingmanni Samfylkingar og síðan öðrum þingmanni þeirra flokka sem fá aðeins einn þingmann.