Skoraði á Múlaþing að stöðva endurbætur á slökkvistöð Djúpavogs
Þegar ákveðið var hjá Múlaþingi að hefjast skyldi handa við nauðsynlegar endurbætur á slökkvistöð Djúpavogs kom fram áskorun frá einum íbúa þorpsins um að stöðva þær framkvæmdir. Ekki var orðið við þeirri beiðni af hálfu sveitarfélagsins.
Húsnæði slökkviliðs Djúpavogs hefur lengi þurft á endurbótum að halda en húsnæðið gamalt og lítt fengið viðhald gegnum tíðina auk þess sem nokkuð þröngt er um þar innanhúss.
Reyfaðar voru þær hugmyndir vegna bágs ástands hússins af hálfu bæði heimastjórnar Djúpavogs og hjá Múlaþingi fyrir fáeinum árum að byggja skyldi nýtt húsnæði frá grunni sem myndi bæði henta slökkviliðinu og björgunarsveitinni og hugsanlega einnig nýtast þorpinu sem áhaldamiðstöð.
Unnið var með þær hugmyndir áfram innan sérstaks starfshóps um tíma en þar tóku upphaflega þátt auk sveitarfélagsins Rauði krossinn á Djúpavogi og björgunarsveitin Bára. Þegar mikill kostnaður við nýja byggingu lá ljós fyrir drógu þeir aðilar sig frá verkefninu og lauk þar með starfi hópsins og punktur settur við öll áform um nýtt hentugt húsnæði.
Múlaþing sótti svo síðasta vor eftir 145 milljóna króna framlagi úr Fiskeldissjóð til að hefja vinnu við endurbætur núverandi slökkvistöðvar og kaupum og viðhaldi á áhaldahúsi þorpsins. fengu þar úthlutað. Var kostnaður við endurbætur slökkvistöðvarinnar einnar saman metinn kringum 60 milljónir króna í þeirri umsókn.
Þegar að úthlutun kom fékk Múlaþing þó aðeins tæpar 40 milljónir til verksins alls og í kjölfar þess ákvað byggðaráð sveitarfélagsins að nýta allan þann styrk í slökkviliðsstöðina.
Áskorun íbúans snéri að því að hætta skyldi framkvæmdum og frekar halda sig við upphaflega áætlun um nýja björgunarmiðstöð en viðkomandi er starfandi bæði í slökkviliðinu og í björgunarsveitinni á staðnum.
Þeirri áskorun hafnaði umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings fyrr í þessum mánuði á þeim forsendum að eftir að samstarfsaðilar drógu sig frá verkefninu sökum kostnaðar væru engar forsendur lengur fyrir hendi til að byggja nýja björgunarmiðstöð.
Slökkvistöð Djúpavogs er hér til húsa en byggingin farin að láta mjög á sjá. Nú er viðhaldsvinna hafin í húsinu og stendur fram á vorið.