Sami aðili tekinn tvisvar fyrir fíkniefnaakstur um helgina
Lögreglan í Fjarðabyggð tók sama manninn tvisvar vegna gruns um að hann keyrði undir áhrifum fíkniefna. Við húsleit hjá manninum fannst rúmlega hálft kíló af kannabisi og tæki til ræktunar.
Lögreglan hafði fyrst afskipti af manninum við reglubundið umferðareftirlit. „Í framhaldinu var farið í húsleit hjá manninum, sem býr í Fjarðabyggð, þar sem lögreglan stöðvaði meðalstóra kannabisræktun og lagði hald á ríflega 500 gr. af kannabisefnum tilbúnum til notkunar og auk þess allan búnað og plöntur á ýmsum stigum ræktunar,“ segir í frétt frá lögreglunni.
Hremmingum hans var ekki lokið því á laugardaginn var hann aftur stöðvaður grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna.
Brotist var inn í Kirkju- og menningarmiðstöðina á Eskifirði. Sá brotlegi náðist þar strax, engu var stolið og tjónið lítið. Nokkrir voru teknir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 125 km/klst hraða.