Sami sýslumaður á Norðurlandi eystra og Austurlandi

Svavar Pálsson, sýslumaður á Norðurlandi eystra, mun næsta árið einnig gegna embætti sýslumannsins á Austurlandi. Lárus Bjarnason lætur innan skamms af embætti sem sýslumaður Austurlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu. Skipanin gildir frá 1. nóvember í ár til 31. október árið 2025.

Lárus Bjarnason, sýslumaður á Austurlandi, lætur af embætti um mánaðamótin. Hann var upphaflega skipaður bæjarfógeti og síðar sýslumaður í Norður-Múlasýslu árið 1989 og varð sýslumaður á Austurlandi árið 2015 við breytingar á embættunum.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að sú ákvörðun að setja sýslumann yfir tvö embætti samræmist áherslum yfirvalda í málefnum sýslumanna, þar á meðal að bæta þjónustuna við almenning með því að fella niður áhrif umdæmismarka og auka hagkvæmni við rekstur embættanna.

Þannig hefur Kristín Þórðardóttir, sýslumaðurinn á Suðurlandi, verið sett tímabundið yfir embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum frá október 2023 og Birna Ágústsdóttir yfir sýslumannsembættið á Vesturlandi frá júní 2024.

Á Austurlandi eru sýsluskrifstofur á Seyðisfirði, Eskifirði, Egilsstöðum og Vopnafirði.

Árið 2022 kynnti Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, áform um að sameina öll sýslumannsembætti landsins í eitt. Frá því var hins vegar horfið þegar Guðrún Hafsteinsdóttir tók við embættinu í fyrra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar