Samið um skiptingu réttinda ef til virkjunar kemur
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur falið bæjarstjóra að undirrita samkomulag við ríkið um skiptingu tekna af vatnsréttindum ef Geitdalsárvirkjun verður reist. Því fylgir engin ákvörðun um hvort ráðist verði í virkjun.Ákvörðunin var staðfest á síðasta fundi bæjarstjórnar. Björg Björnsdóttir, bæjarfulltrúi Héraðslistans, kallaði eftir staðfestingu á að samkomulagið fæli í sér samkomulag sveitarfélagsins og fjármálaráðuneytisins um skiptingu tekna ef til virkjunar kæmi og að í því fælist engin ákvörðun um virkjunina.
Þetta staðfesti Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, er hann svaraði fyrirspurninni. „Þarna er verið að útfæra gerða samninga sem sveitarfélagið hefur þegar staðfest um verð á nýtingu vatnsréttinda og landnot ef af verður.
Eigendurnir eru tveir, en það hefur alltaf verið gengið út frá að greitt yrði fyrir afnotin í einni greiðslu sem þeir myndu skipta á milli sín.
Þetta er allt gert með fyrirvara en það er ágætt að þessir hlutir séu á borðinu þannig að ekki sé farið í grafgötur með hvaða fjármunir eru á þessum enda,“ sagði Stefán Bogi.
Í fréttum RÚV í morgun var haft eftir framkvæmdastjóra Arctic Hydro, sem vinnur að undirbúningi virkjunarinnar, að samið hafi verið um að borga ríkinu og Fljótsdalshéraði stigvaxandi gjald fyrir virkjunarrétt í Geitdal. Fyrstu fimm árin greiðir fyrirtæki 3% af öllum tekjum virkjunarinnar í leigutekjur, síðan hækkar gjaldið í 5% og svo um eitt prósentustig á fimm ára fresti þar til gjaldið nær 10% tekna 30 árum frá gangsetningu virkjunarinnar.
Fyrirtækið hefur leyfi til rannsókna til ársins 2023. Virkjunin yrði staðsett ofan bæjarins Geitdals í Norðurdal Skriðdal. Aðalmiðlunarlónið þar töluvert fyrir innan og ofan, í svokölluðum Leirudal. Gert er ráð fyrir 2,8 ferkílómetralóni og að virkjunin verði geti framleitt 9,9 MW af rafmagni.