Samningi rift við rekstraraðila Valaskjálfar
Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur rift samningi við núverandi rekstraraðila félagsheimilsins Valaskjálfar. Auglýst verður eftir nýjum aðila innan skamms.
„Þar sem rekstaraðili stóð ekki við greiðslur í samræmi við ákvæði samningsins var honum rift,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, um ástæður uppsagnarinnar í samtali við Agl.is.
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs ákvað á fundi sínum í seinustu viku að semja við Leikfélag Fljótsdalshéraðs um umsjón hússins en leikfélagið frumsýndi þar á föstudag nýja sýningu sem sýnd verður út mánuðinn.
Björn segir að á næstu dögum verði auglýst eftir aðilum sem hafi áhuga á að koma að daglegum rekstri þess hluta hússins sem sveitarfélagið er með á leigu.
Hótelhlutinn tilheyrir enn sama aðila og undanfarin ár.