Samþykkt að selja Rafveitu Reyðarfjarðar
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag að selja Rafveitu Reyðarfjarðar til Rarik og Orkusölunnar fyrir samanlagt um 570 milljónir króna. Salan var samþykkt með atkvæðum fulltrúa Fjarðalistans, Framsóknarflokks og Miðflokks. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn sölunni þar sem þeir vildu kanna frekar áhuga Íslenskrar orkumiðlunar á hluta Rafveitunnar en lýstu þó þeirri skoðun sinni að rétt væri að selja hana.Sala á Rafveitu Reyðarfjarðar hefur verið til umræðu í bæjarráði og síðar bæjarstjórn Fjarðabyggðar frá því í lok nóvember. Trúnaður var á söluviðræðunum en honum var aflétt á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku og þar meðal annars upplýst um kaupverðið.
Rarik greiðir 440 milljónir fyrir dreifikerfi og spennistöðvar en Orkusalan 130 milljónir fyrir raforkuviðskipti Rafveitunnar, sem nær öll eru innan þéttbýlismarkanna á Reyðarfirði auk rafstöðvarinnar i Búðará. Eignirnar verða afhentar 1. febrúar, að því gefnu að þá liggi fyrir samþykki Samkeppniseftirlitsins á orkusölunni og iðnaðarráðherra á framsali einkaleyfis Rafveitunnar til orkudreifingar.
Í umræðum á fundinum í dag kom fram að möguleg sala Rafveitu Reyðarfjarðar hefði nokkrum sinnum verið rædd í bæjarstjórn síðustu ár. Þannig hefði árið 2016 verið mörkuð sú stefna að ef til sölu kæmi yrði leitað eftir viðræðum við opinbera aðila.
Ferlið nú virðist hafa farið af stað í mars þegar Landsvirkjun sagði upp þjónustusamningi um áætlanagerð um orkuþörf og dagleg innkaup rafveitunnar, sem kaupir á markaði 95% þeirrar orku sem hún selur aftur til neytenda. Í gærkvöldi var haldinn fjölsóttur íbúafundur á Reyðarfirði þar sem fram kom töluvert hörð andstaða við söluna.
Í framsögu þar lýsti Snorri Styrkárson, fjármálastjóri Fjarðabyggðar, því að til að mæta uppsögn samningsins við Landsvirkjun þyrfti Rafveitan að takast á hendur kostnað sem myndi þýða að rekstur hennar yrði í járnum næstu ár. Þær röksemdir voru endurteknar á bæjarstjórnarfundinum í dag og voru forsendan fyrir því að fulltrúar allra flokka töldu rétt að Rafveitan yrði seld.
Ekki hægt að lofa áframhaldandi velgengni
„Undanfarnir dagar hafa eðlilega snúist um sölu Rafveitu Reyðarfjarðar. Ég hef verið fylgjandi henni. Það er afstaða sem ég tek eftir að hafa athugað málið vel og farið yfir sjónarmið. Ég skil að vel að margir Reyðfirðingar séu ósammála mér, þetta er 90 ára fyrirtæki sem byggt var upp og haldið uppi af framsæknu fólki með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
Eftir að hafa skoðað þær áskoranir sem raforkusalan stendur frammi fyrir og auknar kröfur á raforkufyrirtæki get ég ekki staðið hér of lofað íbúum að áfram verði hægt að tryggja hámarksvirði Rafveitu Reyðarfjarðar. Það kann að vera að við getum áfram rekið hana með hagnaði, en það er ljóst að þar sem þeir hagstæðu þjónustusamningar sem við höfum notið renna út um áramót mun rekstrarkostnaður hækka.
Það hefur meðal annars verið gagnrýnt að málið hafi verið hulið, að ekki hafi allt komið fram eða of seint. Ýmsir eru reiðir. Allt er þetta eðlilegt. Afstaða Sjálfstæðisflokksins er þó sú að skynsamlegt sé að selja Rafveitu Reyðarfjarðar en setja það skilyrði að hámarka virði og ávinning sem það framsækna fólk hér lagði gruninn að með að setja hann í innviði. Það hefur alltaf verið okkar skilyrði að söluandvirði fari fyrst og fremst og strax í íþróttahúsið á Reyðarfirði,“ sagði Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Oddviti flokksins, Dýrunn Pála Skaftadóttir, tók fram að hún væri sammála bókun bæjarráðs um að rétt væri að selja rafveituna.
„Menn vilja bara þrasa við okkur“
Rúnar Gunnarsson, Miðflokki, sagðist hafa spurt margra spurninga í ferlinum og fengið svör. „Ég segi já frá hjartanu. Niðurstaðan er alltaf skýr um að ekki sé annað í stöðunni en að selja. Ég benti mönnum fyrir fundinn í gær á leiðir til að gera þetta sjálfir. Á fundinum komu engar leiðir fram, það virðist því ekki vera mikill áhugi, menn vilja bara þrasa aðeins við okkur.“
Rafveitan framleiðir í dag 5% þess rafmagns sem hún selur með rennslisvirkjun í Búðará sem upphaflega var byggð árið 1930. Rúnar varaði við að það yrði kostnaðarsamt að fara í framkvæmdir til að efla virkjunina. „Vilja Reyðfirðingar stækka lónið og hafa það fyrir ofan sig? Eru Fjarðabyggðarbúar tilbúnir að setja mikið af peningum í svona orkuveitu? Hætta við leikskóla á Eskifirði og aðrar framkvæmdir sem við höfum sett á blað og virkja frekar hér uppi í dal.
Rafveita Reyðarfjarðar verður aldrei rekin öðruvísi nema með stórframkvæmdum. Það er eins og menn átti sig ekki á að Rafveita Reyðarfjarðar framleiðir ekki þessa orku. Við kaupum hana bara með peningum fólksins og seljum hana aftur. Ég er sammála sölu rafveitunnar, ég sé engan grundvöll fyrir að reyna að reka þetta áfram.“
Erfitt að vera Reyðfirðingur í dag
Hjördís Seljan, Fjarðalistanum, sagði ekki auðvelt að vera Reyðfirðingur í dag. Hún sagðist þó telja sölu skynsamlega miðað við þær upplýsingar sem hún hefði. Hún hefði stutt sölu fyrir íbúafundinn í gærkvöldi og þar sannfærst enn frekar en bætti við. „Það verður ekki auðvelt að vera Reyðfirðingur um jólin.“
Hún sagði mikilvægt að rafveitan yrði áfram í opinberri eigu. Ríkið er eini eigandi Rarik sem aftur er eigandi Orkusölunnar. Hún fagnaði því að bæjarstjórn hefði verið samstíga í gegnum nær allt söluferlið. Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans og formaður bæjarráðs, tók sömuleiðis undir að mikilvægt væri að rafveitan væri áfram í eigu opinberra aðila.
Rarik og Orkusalan með þjónustu eystra
„Framtíðin er ekki alltaf ljós þótt fortíðin hafi fengið vel. Það blasir við í dag. Rafveita Reyðarfjarðar getur farið í stækkun, aukið framleiðslu sína með miklum fjárfestingum og öryggi í framleiðslu með stíflu og lóni ofan byggðarlagsins. Það er allt hægt – en er rétt að sveitarfélagið standi í því?“ spurði Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks og forseti bæjarstjórnar sem mælti fyrir bókun um málið.
Í bókuninni segir meðal annars að sú staðreynd að Rarik og Orkusalan séu að fullu í opinberri eigu og með starfsemi á Austurlandi sé tryggt að notendur rafveitunnar sitji við sama borð og aðrir landsmenn hvað varði öryggi og þjónustu. Það sé mikilvægt og grundvallarástæða þess að leitað var til þeirra um kaupin. Þar segir einnig að ýmis rök og spurningar hafi komið fram á íbúafundinum og ítrekað að bæjarfulltrúar nálgist málið og rök með og á móti sölunni af virðingu. Þá er lýst vilja til að nýta fjármunina til uppbyggingar á Reyðarfirði, einkum íþróttahúss. Þá verði varðveisla húsnæðis rafstöðvarinnra tryggð í samningum við Orkusöluna.
Ragnar sagðist sammála bókuninni og sagðist ekki efast um að bæjarfulltrúar tækju ákvörðun með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Hann sagðist, líkt og Hjördís, hafa fengið mikla gagnrýni úr samfélaginu en sannfærst enn frekar á fundinum í gær við kynningu fjármálastjórans.
Rétt að staldra við þegar áhugi berst úr nýrri átt?
En það er ekki þar með sagt að bæjarfulltrúarnir hafi verið alls kostar sammála í dag. Þannig benti Ragnar á að minnihlutinn hefði aldrei setið við samningaborðið með fulltrúum meirihluta og kaupenda. Það væri samt ekki stórt atriði, minnihlutinn hefði treyst meirihlutanum og bæjarstjórn verið sammála um að vera samstíga.
En þrátt fyrir að vera í meginatriðum sammála sölunni greiddu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samt atkvæði gegn sölunni á fundinum í gær. Í gærkvöldi barst erindi frá Íslenskri orkumiðlun, samkeppnisaðila Orkusölunnar á smásölumarkaði með raforku. Í því er lýst yfir vilja til viðræðna og jafnvel að greiða hærra verð en Orkusalan hafði boðið í smásöluhluta Rafveitu Reyðarfjarðar og virkjunina í Búðará.
Ragnar hvatti til þess að staldrað yrði við, afgreiðslu málsins frestað og hlustað á hvað Íslensk orkumiðlun hefði fram að færa. Taldi Ragnar þetta jafnvel tækifæri til að kanna hvort bærinn gæti haldið eftir rafstöðinni og eins láta á það reyna hvort söluverðið til Orkusölunnar væri hagstætt.
„Söluhluti rafveitunnar er á samkeppnismarkaði. Íbúar geta samið við hvaða fyrirtæki sem er, sama þótt við seljum til opinberra aðila. Það hlýtur að vera í lagi að kanna hvað einkageirinn er tilbúinn að borga. Ef það er umtalsvert hærra þá hlýtur að vera eitthvað að því tilboði sem við fengum. Þá opnar það augu okkar fyrir því að staldra við.
Er ekki ástæða til að staldra við og heyra hljóðið í þessum mönnum, hvað þeir hafa að bjóða. Er það ekki skylda hér inni að sjá hvað menn eru tilbúnir að bjóða í þennan hluta rafveitunnar? Er það ekki skylda okkar gagnvart Reyðfirðingum, að sjá hvað við getum fengið fyrir þennan hluta.
Ég hef allan tíman sagt að ég sé tilbúinn að ganga að samningum við Orkusöluna og Rarik en í ljósi þessara gagna tel ég rétt að sjá hvað menn hafa og eru tilbúnir að bjóða. Það er enginn að tala um að hætta við söluna,“ sagði Ragnar.
Nýjar viðræður jafngilda höfnun
Aðrir bæjarfulltrúar deildu ekki þeirri skoðun. Bæði Jón Björn og Einar Már Sigurðarson, Fjarðalistanum, töldu erindi Íslenskrar orkumiðlunar ekki bera vott um gott viðskiptasiðferði. Ekki gengi að menn sendu inn slíkt erindi eftir að búið væri að aflétta trúnaði og greina frá kaupverði.
„Ég var þeirrar trúar að siðferðismörkin hjá þeim sem eru í slíkum viðskiptum að menn færu ekki af stað þegar búið væri að birta verðið. Annað hvort hafa menn hug á viðskiptum og láta vita af því í tíma en ekki þegar samningaviðræður eru komnar á það stig að tölur hafa verið birtar. Þá bíða menn eftir að viðræðurnar klárist eða ekki og ef ekki þá er hægt að taka upp þráðinn,“ sagði Einar Már Sigurðarson.
Erindið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi sem haldinn var á undan bæjarstjórnarfundinum. Bæjarráð tók ekki afstöðu til erindisins, þar sem söluverðið til Orkusölunnar hefði verið birt. Einar Már sagði það síst of fast að orði kveðið. „Það hefði mátt senda með vísdómskver um siðferði þegar þessu væri svarað.“
Báðir sögðu að það myndi setja samningana sem lægju fyrir í uppnám ef farið yrði í viðræður nú við nýjan aðila. „Hver væri trúverðugleiki okkar ef við tækjum þátt í þessum leik? Að við þurfum að hinkra við því eftir opinberum sé bisnesshópur sem ef til vill getur borgað meira. Það má skilja sem svo að við séum að hafna samningunum,“ sagði Einar.
„Ég veit ekki hvernig menn upplifa viðskipti, en ef samningum er lokið og verð kynnt þá er hægt að líta á það sem uppsögn ef þeir heyra að annar aðili sé kominn með meira. Að fara uppboðsleiðina væri álitshnekkur fyrir þann sem ég væri að semja við. Menn geta leyft sér svona í einstaklingsviðskiptum með minni hagsmuni en sveitarfélög gera það ekki. Það er verið að sá fræjum um tortryggni að einhverjir séu hlunnfarnir,“ sagði Jón Björn.
Rúnar lýsti einnig efasemdum um erindið. „Ég veit ekki með þessa braskara sem eru að bjóða. Þetta er fyrirtæki sem er búið til, til að búa til peninga. Ég held að við ættum að halda okkur við opinbera stofnun.“
Ragnar spurði hvenær Íslensk orkumiðlun hefði áður getað komið á framfæri áhuga sínum því málið hefði verið trúnaðarmál og sagðist telja að fyrirtækið hefði fyrst orðið möguleikans áskynja þegar málið fór í fjölmiðla fyrir helgi. Jón Björn og Einar Már svöruðu því til að Rafveita Reyðarfjarðar hefði löngum verið þekkt stærð á íslenskum orkumarkaði. Bókanir um uppsögn samnings Landsvirkjunar hefðu verið í fundargerðum nefnda sveitarfélagsins í vor og fjölmiðlar fjallað um málið áður en trúnaðinum var aflétt í síðustu viku.
Hægt að fá hærra verð?
Ragnar ræddi ennfremur kaupverðið sem hann sagðist hafa verið sannfærður um að væri sanngjarnt, hið minnsta þar til bréf Íslenskrar orkumiðlunar barst. „Mínar skyldur eru gagnvart íbúum, einkum Reyðfirðingum, ekki þeim raforkufyrirtækjum sem við höfum rætt við þótt við berum líka skyldur gagnvart þeim. Ég hvatti til þess strax í morgun að staldrað yrði við og viðræðurnar teknar, ekki síst til að eyða óvissunni um að við séum að ganga að einhverju sem við getum ekki fullvissað íbúana um að sé hámarksvirði.“
Þá gagnrýndi hann harkaleg viðbrögð í garð fyrirtækisins. „Hér standa menn upp og saka þetta fyrirtæki, sem ég þekki ekkert til, um loddaraskap. Þetta gengur ekki, við hljótum að geta sest niður, staldrað við og tekið viðræðurnar.
Ég veit að menn munu standa upp og saka okkur um að svíkjast undan og hverfa frá, en ef ég væri í pólitískum loddaraleik hefði ég ekki hvatt bæjarstjórnina til að doka við. Ég vil ítreka beiðni mína um að fresta málinu og taka upplýsta og málefna lega afstöðu.“
Dýrunn Pála tók undir með Ragnari en sagði erfitt að taka afstöðu til beiðni um viðræður þegar kaupverð væri orðið opinbert. Hins vegar hefði verið gott ef hægt hefði verið að leita tilboða þegar farið var af stað með málið.
Rúnar sagðist hissa á umræðunni. „Nú snýst hún allt í einu um verðið. Ég hélt að menn væru með það á heilanum að rafveitan væri gömul og þeir vildu ekki selja hana. Nú er það ekki málið lengur heldur hvort við höfum náð hámarksverði.“
Jón Björn ítrekaði orð sín frá íbúafundinum í gærkvöldi um að hann teldi viðræðurnar við Orkusöluna og Rarik hafa skilað sanngjörnu verði fyrir alla aðila. Önnur aðferðafræði hefði getað skilað hærra verði en þar með væri fórnað því grundvallaratriði að halda rekstrinum í opinberri eigu sem þjónustaði Reyðfirðinga. Í gegnum ferlið hefði það verði pólitísk sannfæring, þvert á flokka að tryggja áframhaldandi opinbera eigu til að tryggja Reyðfirðingum þá grunnþjónustu sem raforka sé.
Trúnaðar þörf meðan viðræður voru í gangi
Bæjarfulltrúarnir brugðust í dag jafnframt við gagnrýni um að farið hafi verið málið sem trúnaðarmál og ekkert kynnt um það fyrr en síðasta fimmtudag og loks af alvöru á íbúafundinum í gærkvöldi. „Ég tek gagnrýni um leyndarhjúp en samningaviðræður eru oft í eðli sínu þannig að um þær þarf að ríkja ákveðinn trúnaður á meðan menn ná saman. Þegar það lá fyrir samþykkti bæjarstjórn að kynna málið og birta verðið.“
Á íbúafundinum í gær sagði Rúnar að alltaf hefði staðið til að halda íbúafund um söluna, en upphaflega hefði átt að staðfesta söluna fyrir fund en það hefði breyst. „Rúnar fékk örugglega mörg stig fyrir þessa setningu. Ég hef alltaf verið samkvæm sjálfri mér og sagt að ég væri sammála sölunni en væri ekki tilbúin að greiða atkvæði með henni fyrr en ég hefði talað við Reyðfirðinga, sem við gerðum í gær,“ sagði Hjördís Seljan.
Ragnar sagði að fram hefði komið ýmis gagnrýni á ferlið, meðal annars trúnaðinn. Á því mætti hafa ýmsar skoðanir. Eflaust yrði tekist á áfram um málið. „Það breytir þó ekki þeirri niðurstöðu að við teljum hagsmununum best borgið með að Rafveita Reyðarfjarðar sé seld.“