„Sarpur er eins konar gluggi inn í geymslurnar“

Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum og Minjasafnið á Burstafelli eru meðal þeirra safna sem taka nú þátt í vefsýningu á sarpur.is sem ber heitið Æskan á millistríðsárunum.


„Það hefur færst í vöxt að söfn í landinu setji upp einhvers konar vefsýningar, bæði í gegnum Sarp eða aðra miðla. Söfnin eru alltaf að leita leiða til að ná til fólks og fjölga miðlunarleiðum. Söfnin í landinu geyma gríðarlegt magn gripa af öllum stærðum og gerðum, allt frá títuprjónum og upp í heil hús. Bara hér á Minjasafninu eru varðveittir í kringum 11.700 gripir og hér vinna safnverðir ötullega að því alla daga að ljósmynda þá, bæta skráningar og birta upplýsingarnar á Sarpi. Stór hluti skráninga Minjasafnsins er kominn á netið en það er mikið verk eftir enn,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands.

Sarpur virkar í báðar áttir


Elsa Guðný segir að miklu máli skipti fyrir Minjasafn Austurlands að vera með í sýningu sem þessarri. „Bæði vekur hún athygli á Minjasafninu og Sarpi og þeim gríðarmiklu upplýsingum sem þar er að finna. Einnig á starfinu sem fer fram bak við tjöldin á söfnum landsins, þ.e. við skráningar, ljósmyndun og rannsóknir á þeim munum sem söfnin geyma. Já við finnum alltaf fyrir áhuga á gripunum sem við varðveitum, ekki síst gripum sem hafa merkilega sögu eða tengjast ákveðnum einstaklingum.


Það gefur auga leið að það er aldrei hægt að sýna alla gripina sem söfnin geyma í sýningarsölum þeirra en með Sarpi gefst fólk kostur á að skoða safnkostinn í gegnum netið. Sarpur er eins konar gluggi inn í geymslurnar og bætir þannig aðgengi fólks að þjóðararfinum. Sarpur virkar líka í báðar áttir því að í gegnum hann getur almenningur með auðveldum hætti sent upplýsingar, leiðréttingar og ábendingar varðandi tiltekna muni til safnanna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.