Sóðaskapur seinkaði skólasundi í Selárlaug
Fella þurfti niður skólasund í Selárlaug í Vopnafirði nýverið vegna sóðaskapar sundlaugargesta. Aðgangur að lauginni er öllum frjáls allan sólarhringinn.
„Morgungestir laugarinnar fengu að reyna að eigin raun þá vanvirðu sem Selárlaug hafði verið sýnd, öðru sinni á innan við mánuði. Óþarft er að tíunda þá miður góðu ásjónu sem við gestum blasti en rétt að ítreka það sem áður var skrifað hvernig munu t. a. m. flugbeitt glerbrot fara með lítinn fót eða stóran?“ segir í frétt á vef Vopnafjarðarhrepps.
Fella þurfti niður skólasundið fimmtudaginn 13. september síðastliðinn þar sem umgengni gesta var það slæm. Fréttinni lýkur á þeim orðum að málinu sé ekki lokið og gefið í skyn að hreppurinn skoði möguleikann á að hafa hendur í hári þeirra sem þarna voru á ferð.