Sauðfjárbændur veita Klettinn

Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum hélt aðalfund sinn nýlega. Eftir fundinn veitti félagið verðlaunagripinn Klettinn í fyrsta sinn. Kletturinn er veittur fyrir hæst stigaða lambhrútinn á félagssvæðinu.

saudfjarbaendur_verdlaun_jakob_sig.jpgKletturinn sem er farandgripur, er listaverk eftir Eyjólf Skúlason, skúlptúr af hrút höggvið í fjörustein af Borgarfirði eystri. Gripurinn hefur skírskotun til verðlaunahrúts sem hét Klettur og var í eigu Sigurjóns Guðmundssonar og Ágústu Óskar Jónsdóttir bænda á Eiriksstöðum II á Jökuldal.  Klettur var mikið metfé.  Hann stóð efstur á Héraðssýningu hér eystra árið 1965, veturgamall.  Hann var þá talinn einhverglæsilegasta kind sem sést hafði til þess tíma hér á landi, var hæst stigaði hrúturinn á landinu og það eru ekki  margir hrútar sem náð hafa þeirri stigun til þessa dags.

Kletturinn, nefnist einnig verðlaunasjóður sem félagið stofnaði til, með styrk frá Sauðfjárræktarfélögunum á svæðinu og kostar hann árlega verðlaun fyrir þrjá hæst stiguðu lambhrúta á félagssvæðinu.

Klettinn var nú veittur í fyrsta skipti, hann hlutu að þessu sinni, Arnór Benediktsson og Ingifinna Jónsdóttir bændur á Hvanná II fyrir hæst stigaða lambhrút á félagssvæðinu síðasta haust. Þau Arnór og Ingifinna áttu einnig lambhrútinn sem varð í öðru sæti. En í þriðja sæti varð lambhrútur í eigu Guðmundar Péturssonar og Önnu Jónu Árnmarsdóttir  bænda í Bessastaðagerði í Fljótsdal.

Verðlaunaafhendingin fór fram í hófi eftir aðlfund félagsins sem haldinn var Á Hreindýraslóðum á Jökuldal.  Stjórn félagsins ákvað að létta fundinn aðeins upp og hafa veislu og skemmtun eftir aðalfundinn, þegar bændur hefðu meðtekið talað orð og hlustað á þurrar tölur.  Skemmtiatriði voru flutt yfir borðhaldi auk verðlaunaafhendingarinnar sem áður er getið.

Til aðalfundarins mættu Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri landssamtakana og fóru yfir stöðu mála.

Nýr formaður Félags Sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum var kjörinn á fundinum, Sigvaldi Hreinn Ragnarsson bóndi á Hákonarstöðum.  Fráfarandi formaður Aðalsteinn Ingi Jónsson í Klausturseli og Anna Bryndís Tryggvadóttir á Brekku höfðu lokið sinu sex ára kjörgengi hjá félaginu og voru Margrét Benediktsdóttir Hjarðar Hlíðartúni og Guðrún Agnarsdóttir í Hoftegi kjörnar í stjórnina í stað þeirra .  Fyrir sátu í stjórninni, ásamt Sigvalda, Helgi Haukur Hauksson á Straumi og Magnús Sigurðsson Víkingsstöðum.  

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum.

1 Tillaga um undanþágu frá merkingum

Aðalfundur LS 2010 skorar á Landbúnaðarráðherra, við innleiðingu nýrra EB-reglugerða um merkingar gripa, að fylgja eftir ítrekuðum óskum sauðfjárbænda um undanþágu frá ákvæðum um merkingu með tveimur plötumerkjum í sauðfé vegna sérstöðu landsins.

Greinargerð:

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um þessar undanþágur virðist, af hálfu stjórnvalda, ekki ennþá hafa verið tekið tillit til sjónarmiða íslenskra sauðfjárbænda í málinu.

Fullyrt er að Ísland eigi góða möguleika á undanþágu frá þessum ákvæðum sé þess óskað og gild rök lögð fram til stuðnings málinu.

Meðal þess sem sauðfjárbændur krefjast er að fá íslensku eyrnamörkin viðurkennd sem aðra merkinguna og þar sem lambamerkingar innan EB virðast yfirleitt ætlaðar sem búsmerkingar ættu íslensku mörkin að halda fullu gildi, líkt og tattóvering er viðurkennd merkingaraðferð í annað eyra innan EB.

Flutningar á lifandi fé inn og út úr landinu eru ekki fyrir hendi þar sem Ísland er afskekkt eyland og ekki er hefð fyrir viðskiptum með sláturlömb milli búa innanlands eins og tíðkast í EB-löndunum.

Ein sérstaðan er sú að ríflega 90% íslenska sauðfjárstofnsins er skráður í opinbert skýrsluhald Bændasamtaka Íslands.

Í ljósi ofantalinna atriða telur fundurinn algerlega óþarft að hérlendis verði merkingarreglum EB fylgt út í æsar.

2 Tillaga um dýraverndarmál og vörslusviptingu

Aðalfundur félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum 2010 beinir því til Landssamtaka sauðfjárbænda að leita leiða til að stytta og gera skilvirkara ferli vörslusviptingar í málefnum er varða dýravernd.

Greinargerð:

Svo virðist sem ferli vörslusviptingar á búfé í þeim málum er varða dýravernd og þar sem aðbúnaði og hirðingu búfjár er ábótavant, sé allt mjög þungt í vöfum og óskilvirkt líkt og nýleg dæmi sanna. Leita þarf leiða til að stytta þetta ferli og gera það skilvirkara, til hagsbóta fyrir þá er málin varða. Það er ólíðandi að alvaarleg dýraverndarmál geti verið að veltast í dómskerfinu í lengri tíma án þess að heimild sé fyrir hendi til handa sveitarfélögum og MAST að vörslusvipta þá búfjáreigendur sem brjóta lög um dýravernd og lög um hirðingu og aðbúnað ítrekað og valda með því búfé sínu skaða.

3 Tillaga um notkun dýralyfja

Aðalfundur félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum 2010 beinir því til aðalfundar Landssamtaka sauðfjárbænda að sjá til þess að breytingar á reglugerð um lyfjanotkun vegna tilskipunar leiði ekki til verðhækkunar eða lakari meðferðar á sauðfé.

Greinargerð:

Dæmi eru um að ákveðin lyf séu ekki lengur fáanleg til að meðhöndla sjúkdóma vegna þess að þau eru einnig notuð sem mannalyf að sagt er í reglugerðum. Þetta á meðal annars við um sýklalyfið Duplocillin sem notað var til meðhöndlunar kýlaveiki, eitt skipti í senn. Í staðinn er beitt öðrum sýklalyfjum svo meðhöndla þarf í 3 til 5 skipti, þar með 3 til 5 sinnum dýrari meðhöndlun. Þá hefur mixtúran Primasol verið tekin úr sölu, en hún hefur verið notuð með góðum árangri við meðhöndlun skitu og slefu smálamba.

 

4 Tillaga um endurgreiðslu olíugjalds

Aðalfundur félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum 2010 skorar á fjármálaráðherra Ríkisstjórnar Íslands að lækka nú þegar álögur á díselolíu og bensín og endurgreiða hluta olíugjalds.

Greinargerð:

Hinar óhóflegu álögur sem nú eru á eldsneytisverði koma hvað harðast niður á fólki í dreifðum byggðum landsins sem þurfa oft á tíðum að sækja atvinnu og þjónustu um langan veg, einnig leyðir þessi óhóflega skattheimta til allt of mikiils flutningskostnaðar. Þá er vert að vekja athygli að vegaþjónusta er nú skert frá því sem áður var. Sú var tíðin að bændur fengu hluta þungaskatts endurgreiddan meðan hann var við lýði, vegna aksturs í þágu landbúnaðar. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.