Segir engar tafir á byggingu glæsivillu Ratcliffe í Vopnafirði
„Ég kannast ekki við neinar tafir að ráði en það var nýverið skipt út teyminu á staðnum því steypuvinnu er svo gott sem lokið,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Six Rivers og talsmaður Bretans Jim Ratcliffe, sem nú reisir stórt og mikið veiðihús í hlíðum Vopnafjarðar.
Heimildir Austurfréttar herma að verulegar tafir séu á byggingu villunnar meðal annars vegna þess að hönnun þess er enn að taka breytingum þó framkvæmdir við bygginguna hafi byrjað síðla síðasta sumar. Þá undrast margir heimamenn hversu fáir starfsmenn séu að störfum við verkefnið.
Gísli hafnar þessu og segir engar tafir á verkinu hingað til. Þurft hafi að færa til verkefni og slíkt en verkið í heild sé á áætlun og húsið eigi að vera fullbúið að ári liðnu.
Sumarið lítur vel út
Aðspurður um sölu veiðileyfa í Vopnafirði segir Gísli að það sé langt síðan öll leyfi voru seld. Hann er sérstaklega bjartsýnn á jákvætt sumar í veiðinni þar sem hlýrra hefur verið þetta vorið á Austurlandi en mörg undanfarin ár á þessum árstíma.
„Ég hef verið mikið á þessu svæði allt frá árinu 1986 og nánast alltaf frá 1989 og oftar en ekki hefur verið kalt á þessum slóðum langt fram í júní og jafnvel lengur. Það þarf í engar grafgötur að fara að loftslagið hefur breyst töluvert á þessum tíma og nú er til dæmis afar lítil snjóbráð og ef það hlýnar ekki of mikið er það jákvætt fyrir laxinn. Ekki of kalt og ekki of heitt og þá mega menn eiga von á góðu sumri í veiðinni.“
Gísli bendir á að nú þegar stór laxveiðisvæði hafi nú lokast fyrir veiðimönnum í Rússlandi og verði líklega lokuð erlendum aðilum næstu árin sé auðveldara að selja leyfi hérlendis. Hvort hugsanleg efnahagskreppa í heiminum, sem sumir fræðingar telja að sé framundan, hafi neikvæð áhrif á það verði að koma í ljós.
Byggingarsvæðið eins og það leit út fyrir tveimur vikum síðan. Ráðgert er að vinnu ljúki að ári. Mynd AE