Segir fjármunum hafa verið forgangsraðað til rannsóknar á loðnu

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að núverandi ríkisstjórn hafi lagst á árarnar með Hafrannsóknastofnun og útgerðum loðnuveiðiskipa um leit að loðnu. Loðnubrestur annað árið í röð getur haft áhrif á framtíðarmöguleika á mikilvægum mörkum.

Þetta kom fram í svari Kristjáns Þórs í síðustu viku við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttir, þingsmanns Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði.

Eins og sakir standa er útlit fyrir að annað árið í röð verði ekki hægt að veiða loðnu í íslenskri landhelgi. Slíkt hefur mikil áhrif á bæði þjóðarbúið sem og einstök sveitarfélög, svo sem Fjarðabyggð og Vopnafjörð.

„Bein áhrif eru á uppsjávarfyrirtækin sem og fjölda fyrirtækja um land allt sem þjónusta þau, m.a. við landanir og flutninga, tækni og ýmislegt annað. Þar fyrir utan tapa einstaklingar og heimili mikilvægum tekjum, sveitarfélög og ríkissjóður,“ sagði Líneik Anna.

Hún spurði meðal annars út í samstarf Hafrannsóknastofnunar og sjávarútvegsfyrirtækjanna, en í nýafstöðnum leitarleiðangri tóku þátt fjögur skip frá loðnuútgerðum og eitt rannsóknarskip. Að auki spurði Líneik Anna hvort sjávarútvegsráðherra myndi hafa frumkvæði að því að ræða stöðu byggðanna í ríkisstjórn og hvort ástæða væri til að bregðast við, til dæmis með að efla nýsköpun og rannsóknir.

Áhrifanna gætir einnig í Japan

Kristján Þór svaraði að rétt væri að mikið væri í húfi, bæði fyrir lífríkið við landið sem og afkomu samfélagsins alls. Til að bæta gráu ofan á svart loðnuveiðiútlit er niðursveifla í veiðum á humri og sæbjúgum sem bitnar einnig á sumum uppsjávarveiðisamfélaganna. „Mörg þessara samfélaga eru að verða fyrir gríðarlegri blóðtöku,“ sagði Kristján Þór.

Kristján Þór sagði að núverandi ríkisstjórn hefði forgangsraðað fjármunum í þágu loðnurannsókna og nefndi sem dæmi að aldrei hefði verið ráðist í jafn víðtæka leit og í fyrra. Þar hefðu Hafrannsóknastofnun og fyrirtækin átt mjög gott samstarf sem haldi áfram í ár.

Kristján sagðist hafa vakið athygli á afleiðingum loðnubrestsins í ríkisstjórninni í fyrra en þá hefði ekki verið gripið til beinna aðgerða. Ráðherrann bætti því við að loðnubresturinn hefði afleiðingar víðar en bara þar sem loðnunni væri landað.

„Rétt áður en ég kom í hús fundaði ég með japönskum seljendum og kaupendum að loðnu og loðnuhrognum. Ef það gengur eftir, sem ýmislegt bendir til að geti orðið, að ekki verði endilega hörkuvertíð aftur, því miður, stefnir ekkert vel í því og þá er alveg ljóst að þetta hefur gríðarleg áhrif, ekki bara á atvinnu eða afkomu fólks í Japan heldur sömuleiðis framtíðarmöguleika okkar á þeim markaði sem hefur verið þessari atvinnugrein og þessum þætti sjávarútvegsins gríðarlega mikilvægur.“

Loðnuleitinni lauk um síðustu helgi án þess að loðna fyndist í nógu miklu magni til að gefinn yrði út kvóti. Stefnt er á annan leitarleiðangur í febrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.