Segir Miðflokkinn hafa tapað á því að draga gömlu jálkana á flot

Þröstur Jónsson, fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings, segir að flokkurinn hefði getað náð betri árangri í Alþingiskosningunum síðasta laugardag með meiri endurnýjun á framboðslistum heldur en raunin varð.

Þetta kemur fram í grein sem Þröstur ritaði á Fréttina eftir að úrslitin urðu ljós. Þar segir hann að í aðdraganda kosninganna hafi Miðflokkurinn mælst með gríðarlegt fylgi, allt upp í 34% á Austurlandi og 20% á landsvísu.

Niðurstaðan var 12% fylgi á landsvísu og tæp 16% í Norðausturkjördæmi. Það er talsverð framför frá kosningunum 2021, enda fékk Miðflokkurinn átta þingmenn í stað þriggja þá. Þröstur lýsir þessu sem vonbrigðum í ljósi áður sterkrar stöðu.

Of mikill tími í að tala aðra niður


Hann segir „hverja vegleysuna af annarri“ hafa komið fram eftir að uppstilling fór af stað. Hann gagnrýnir meðal annars að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, hafi farið fram í Norðausturkjördæmi í stað þess að „taka slaginn“ í Kraganum, en lögheimili hans er í Garðabæ.

Í staðinn hefði átt að finna öflugan oddvita í Norðausturkjördæmi. Þröstur tekur fram að hann hafi gefið kost á sér í neðri sæti listans, því hann hafi ekki haft áhuga á þingsæti, en verið hafnað alveg.

Þröstur bætir því við um Sigmund að hann hafi átt slaka kosningabaráttu með að eyða of miklum tíma í að gagnrýna fráfarandi ríkisstjórn í stað þess að tala um stefnumál flokksins. „Kjósendur voru ekki í leit að leðjuslag, allir orðnir hundleiðir á því,“ skrifar Þröstur. Hann lýsir þó áfram yfir stuðningi við Sigmund sem sé „málefnalega réttsýnn“ og með „stórt hjarta.“

Þröstur heldur áfram og segir að „ekki hafi bætt úr skák þegar „gömlu jálkarnir“ fóru að birtast í efstu sætum M-listans í öðrum kjördæmum, í stað þess að taka inn nýtt blóð sem var ákall frá kjósendum.“ Vísar hann væntanlega til þess að fyrrum þingmenn, sem féllu af þingi 2021, voru víða í efstu sætunum.

Flokkurinn hafnaði blessun Guðs


Við þetta bætir Þröstur því að flokkurinn hafi hafnað blessun Guðs, heldur barist á mannlegum forsendum og tapað. Hann lýsir þeirri von að flokkurinn læri af þessari og nýti tímann framundan í að byggja upp innra starf og „opni fyrir þeim eina sem getur fært þessum flokki stóra sigra, Guði almáttugum sjálfum.“

Þröstur segir að kannski verði hann rekinn úr flokknum fyrir skrifin. Það skipti hann ekki máli, álit mannanna skipti hann engu en álit Guðs öllu. Hann ætli sér hins vegar að halda áfram að berjast fyrir Múlaþing og hreyfinguna þar sem hafi átt sinn þátt í uppbyggingar og hreinsunarstarfi flokksins eftir tapið í kosningunum 2021.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar