Segir sjávarútveginn skattlagðan umfram aðrar atvinnugreinar

Stjórnarformaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir sjávarútveg bera þyngri skattbyrði heldur en aðrar íslenskar atvinnugreinar. Auðlindagjöldin séu ekki eina dæmið um það.

„Síldarvinnslan fer hins vegar ekki varhluta af breytingum í rekstrarumhverfinu frekar en önnur fyrirtæki í útflutningi.

Breytingar á gengi íslensku krónunnar, hækkun sumra kostnaðarliða og sveiflur í afurðarverðum úti í heimi er erfitt að stjórna og hafa áhrif á. Aftur á móti eru aðrar breytingar í umhverfi okkar sem við Íslendingar höfum stjórn á,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar á aðalfundi fyrirtækisins í síðustu viku.

Þorsteinn Már tók nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi væri kostnaður við eftirlitsmenn í borð í fiskiskipum nú 84 þúsund krónur á dag miðað við 30 þúsund árið 2015.

Þá greiddi fyrirtækið 530 milljónir í veiðigjöld á síðasta ári. Þau taka hins vegar mið af afkomu nokkrum árum fyrr. „Veiðigjöldin taka ekki mið af aðstæðum í umhverfi okkar í dag heldur þegar aðstæður voru allt aðrar og betri,“ sagði Þorsteinn.

Hann benti á dæmi af Orkuveitu Reykjavíkur sem greiddi engin auðlindagjöld fyrir notkun á vatni.

Þá greiddi Síldarvinnslan 172 milljónir í kolefnisgjöld á síðasta ári. Þorsteinn sagði gjaldið greidd óháð því í hvaða lögsögu skipin veiddu og slík gjöld tíðkuðust ekki erlendis. Á sama tíma slyppu flutning- og skemmtiferðaskip við gjaldið því þau tækju ekki olíu hérlendis. Eins væru vinnuvélar sem taki litaða olíu undanþegin.

Þá hefði Síldarvinnslan þurft að borga 80 milljónir í stimpilgjöld við kaup á nýjum Beiti. Flutningaskip, flugvélar og önnur atvinnutæki bæru ekki slík gjöld.

Hagnaður Síldarvinnslunnar í fyrra nam 2,9 milljörðum króna. Félagið greiddi um 3,3 milljarða í skata á síðasta ári. Til viðbótar greiddu starfsmenn þess 1,2 milljarð í staðgreiðslu af launum.

Mynd: Síldarvinnslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.