Segja ráðherra hafa heitið fé til hönnunar Fjarðarheiðarganga

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og oddviti Borgarfjarðarhrepps eru sammála um að samgönguráðherra hafi ótvírætt látið í það skína að lokið verði við hönnun Fjarðarheiðarganga á næstu tveimur árum.

Þetta var meðal þess sem fram kom í umræðum á íbúafundi um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi í gær. Í þeirri vinnu hefur verið lögð áhersla á samgöngubætur innan nýs sveitarfélags, einkum göngin og nýjan veg yfir Öxi. Spurt var hversu mikið væri hægt að treysta á viljayfirlýsingar sem til þessa hefðu komið fram um framkvæmdirnar.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna, svaraði því til að nefndin hefði fundað með samgönguráðherra síðasta föstudag. Hann sagðist ekki getað annað en túlkað skilaboð ráðherra á þeim fundi á þá vegu að fjárveiting verði veitt til að fara í hönnun ganganna og vinna hana á næstu tveimur árum. „Ég hef trú á að hún fari inn á fjárlög næsta árs.“

Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps, tók undir þetta. „Ég var á fundinum og gat ekki annað en túlkað orð ráðherra eins og Björn, að þetta kæmi inn núna.“

Róbert Ragnarsson, ráðgjafi samstarfsnefndarinnar, sagði að ekkert væri tryggt í samgöngumálum en ljóst að málin væru komin betur á dagskrá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.