Sektaðir fyrir utanvegaakstur
Hver ökumaður þeirra þriggja jeppabifreiða sem um helgina keyrðu utanvegar við Þríhyrningsá á Fljótsdalshéraði greiddi í morgun 100.000 króna sekt fyrir spjöllin. Ljóst er að landið þarf áratugi til að jafna sig.Fara þarf yfir ána á leiðinni frá Möðrudal inn að Vatnajökli. Þegar ferðalangarnir komu að ánni var bíll fastur í vaðinu yfir hana.
Líkt og aðrir biðu þeir drjúga stund eftir að aðstoð bærist en þraut þolinmæðin rétt áður en hún barst og ákváðu að finna sér aðra leið inn yfir ána.
Í leiðinni óku þeir yfir gróið land auk þess að valda skemmdum á árbakkanum þar sem þeir fóru yfir. Talið er að tugi ára taki fyrir skemmdirnar að jafna sig.
Sjónarvottar náðu myndum af aðförunum og komu strax upplýsingum til lögreglu. Lögreglumenn af Norðurlandi eystra, sem staddir voru í Dreka, náðu tali af ferðamönnunum þar og komu upplýsingum til lögreglunnar á Austurlandi sem fór með málið.
Sem fyrr segir komu ökumennirnir til Egilsstaða í morgun þar sem þeim var gert að greiða 100.000 krónur hverjum í sekt. Eftir því sem næst verður komist létu þeir í ljósi óánægju sína með þær málalyktir.
Greint var fyrst frá málinu í fréttum RÚV í gærkvöldi.