Sektir vegna olíumengunar Mógli ehf. á Eskifirði nálgast eina milljón króna

Tæpu hálfu ári eftir að Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) krafðist þess fyrst að fyrirtækið Mógli ehf. hreinsaði upp og fargaði mikið olíumenguðum jarðvegi á tveimur lóðum fyrirtækisins á Eskifirði hefur ekkert gerst. Sektir á fyrirtækið eru að nálgast eina milljón króna.

Skráður forráðamaður fyrirtækisins, Stefán Birgir Guðfinnsson, hefur í engu skeytt tilmælum né kröfum heilbrigðisyfirvalda austanlands þennan tíma og engin einustu viðbrögð hafa heldur komið síðan HAUST hóf loks að beita fyrirtækið dagssektum til að þrýsta á um hreinsun. Hófst innheimta dagssekta á Mógli þann 1. nóvember síðastliðinn og er skuld fyrirtækisins nú komin í 820 þúsund krónur og fer yfir eina milljón króna áður en árið er liðið ef fram heldur sem horfir.

Málið snertir olíumengaðan jarðveg á lóðunum að Strandgötu 59 og 61 á Eskifirði en þær lóðir, eins og nafnið gefur til kynna, standa við sjávarsíðuna og því getur mengaður jarðvegurinn mengað sjóinn líka ef ekkert verður aðhafst. Krafa HAUST snýr einnig að því að tveir húsageymar á lóðunum verði fjarlægðir og fargað sem fyrst.

Austurfrétt gerði tilraun til að hafa samband við Stefán Birgi vegna málsins. Hann er persónulega ekki skráður með símanúmer á ja.is en fyrirtækið Mógli er þar skráð í Hafnarfirði með símanúmerið 791 0091. Skemmst frá að segja að það númer „er ekki virkt. Vinsamlegast athugaðu hvort rétt númer hafi verið valið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar