Selur ís úr sauðamjólk við Hengifoss

Um næstu helgi verður mögulegt að kaupa sér ís úr sauðamjólk og fleira góðgæti úr matvagni við Hengifoss. Það er athafnakonan Ann Marie Schlutz sem stendur á bakvið þetta framtak.

Fjallað er um málið á vefsíðu Fljótdalshrepps. Þar segir að matvagninn beri heitið Hengifoss Food Truck. Vagninn verður handan árinnar, rétt við bílastæðið við Hengifoss. Fyrir utan fyrrgreindan ís verður einnig hægt að fá vöfflur, súpu, heita og kalda drykki og fleira.

Ann Marie stendur að baki fyrirtækinu Sauðagull sem framleiðir osta og konfekt úr sauðamjólk sem hún fær á bænum Egilsstöðum í Fljótsdal. Á Facebook síðu sinni segir Ann Marie að um sé að ræða draum sem orðinn er að veruleika skref fyrir skref,

„Staðbundið hráefni, ferskt, með okkar eigin sauðamjólk og ástríðu okkar fyrir matnum,“ segir Ann Marie.

Mynd: Ann Marie við hlið matarvagnsins./fljotsdalur.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar