Sex einkaþotur á Egilsstaðaflugvelli

Sex einkaþotur voru í dag staðsettar á Egilsstaðaflugvelli. Fjórar þeirra tilheyra Ineos, fyrirtækinu sem gjarnan er kennt við breska auðkýfinginn Sir Jim Ratcliffe sem keypt hefur land við laxveiðiár í Vopnafirði.

Vélar á vegum Ineos hafa farið fram og til baka frá Egilsstöðum síðustu daga. Í morgun komu þær M-ICKY frá Manchester í Englandi, M-ANTA frá Nice í Frakklandi og M-INKE frá eyjunni Brac í Króatíu.

M-OVIE kom frá Nice síðasta föstudag. Á sunnudagskvöld birtist mynd af Ratcliffe þar sem hann bjó sig undir að horfa á úrslitaleik Englands og Spánar á Evrópumótinu karla í knattspyrnu að því er virtist í veiðihúsi í Vopnafirði.

Ratcliffe er eigandi enska knattspyrnuliðsins Manchester United. Hann hefur einnig á undanförnum tíu árum eignast fjölda jarða í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi. Þær eru flestar í umsjón Six Rivers Iceland, félags sem hann stendur að baki og hefur það að markmiði að vernda villta laxinn í Norður-Atlantshafi.

Vélar Ineos eru allar framleiddar af Gulfstream. M-ICKY, M-ANTA og M-INKE eru nýlegar, framleiddar árið 2022.

Tvær vélanna eru ekki frá Ratcliffe. Ferðir þeirra eru ekki rekjanlegar í gagnagrunni FlightRadar. Þær eru báðar skráðar í Bandaríkjunum.

Önnur þeirra N703RK, er skráð á Emergence Southwest í Flórída. Fyrirsvarsmaður þess er Alan Russel Pike fjárfestir. Hann er meðal annars stjórnarmaður í No. 12 Interiors, bresku innanhússhönnunarfyrirtæki sem hannaði lúxushótelið að Deplum í Fljótum.

Hin bandaríska vélin glæný, framleidd af Bombardier í september í fyrra. Hún er með einkennisstafina N750PB og er skráð á Global Support LLC í Utah. Það fyrirtæki gefur sig út fyrir að vera sérhæft í upplýsingatækni, birgðastjórnun og flutningum. Stofnandi þess er Luis Toledo.

Myndir: Jónas Þór Jóhannsson og Unnar Erlingsson

manta movie

minke micky

n750pb

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.