Sex sóttu um starf lögreglustjóra

Sex umsóknir bárust um starf lögreglustjórans á Austurlandi en umsóknarfrestur rann út á föstudag. Nýr lögreglustjóri verður skipaður frá og með 1. mars.

Samkvæmt lögum skulu lögreglustjórnar vera minnst 30 ára, hafa íslenskan ríkisborgararétt, vera svo á sig komnir andlega og líkamlega að þeir geti gegnt embættinu, aldrei hlotið fangelsisdóm né misst forræði á búi sínu og lokið fullnaðarprófi í lögfræði eða háskólaprófi í jafngildri grein.

Í auglýsingu eru að auki gerðar kröfur um góða þekkingu og yfirsýn á verkefnum lögreglu, rekstri, stjórnun, störfum innan stjórnsýslunnar og forustu- og samskiptahæfni.

Lögreglustjórinn stýrir lögregluliði umdæmisins. Hann annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.

Dómsmálaráðherra skipar lögreglustjóra til fimm ára í seinn og veitist embættið sem fyrr segir frá 1. mars.

Eftirtalin sóttu um embætti lögreglustjórans á Austurlandi:

Sigurður Hólmar Kristjánsson – lögfræðingur, staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi vestra
Helgi Jensson – lögfræðingur, staðgengill lögreglustjórans á Austurlandi
Logi Kjartansson – lögfræðingur
Margrét María Sigurðardóttir - forstjóri
Halldór Rósmundur - lögfræðingur
Gísli M. Auðbergsson – lögmaður

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.