Seyðisfjörður: Ekki skrúfað fyrir varmaveitu í lok árs

Stjórnendur RARIK hafa horfið frá fyrri yfirlýsingum um að rekstri fjarvarmaveitu á Seyðisfirði verði hætt í lok árs. Enn er verið að leita lausna á því hvernig hús Seyðfirðinga verði hituð upp til frambúðar.

Stjórnendur Rarik tilkynntu frestunina á fundi sem haldinn var á Seyðisfirði með fulltrúum bæjarins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Orkustofnunar.

Rarik tilkynnti haustið 2017 að til stæði að loka fjarvarmaveitu, sem fyrirtækið hefur rekið frá árin 1981, fyrir lok þessa árs. Dreifikerfi þess væri úr sér gengið og ekki svaraði kostnaði að endurnýja það.

Segja má að frá þeim tíma hafi verið leitað lausna á framtíðarhúshitun Seyðfirðinga. Þær hafa ekki verið fundnar og á fundinum var staðfest að ekki standi til að hætta rekstri fjarvarmaveitunnar á meðan annar kostur hefur ekki enn verið staðfestur.

Enn helst horft á varmadælur

Á fjölmennum íbúafundi á Seyðisfirði haustið 2017 voru íbúar hvattir til að skoða kosti varmadæla sem Rarik bauðst til að niðurgreiða að hluta. Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, segir varmadæluleiðina enn þá sem helst sé horft til.

„Við fórum yfir það á fundinum hvaða leiðir sé búið að skoða. Það eru ekki margir möguleikar í stöðunni. Það er enn verið að skoða varmadælurnar og það verkefni verði fóstrað hjá fyrirtæki sem flytji inn dælurnar og þjónusti þær fyrir hönd bæjarbúa, frekar en hver og einn sé að finna eigin dælu.“

Meðal þeirra kosta sem kannaðir hafa verið eru sjóvarmadælur en sú leið er ekki talin fýsileg þar sem sjórinn sé of kaldur.

Spenntir fyrir heitu vatni frá Héraði

Aðalheiður bætir við að Seyðfirðingar séu áhugasamir um að fá heitt vatn frá Hitaveitu Egilsstaða og Fella í gegnum möguleg Fjarðarheiðargöng. „Við höfum þær upplýsingar frá hitaveitufólki að sá möguleiki sé raunhæfur. Hann þyrfti að skoða nánar en hljómar spennandi.“

Bæði við könnunarboranir fyrir möguleg göng og áður hefur verið horft eftir heitu vatni í og við Seyðisfjörð en vonir um að finna það hafa verið gefnar upp á bátinn.

Húshitunarmál Seyðfirðingar eru því enn til skoðunar, nú helst á borði atvinnu- og nýsköpunarvegaráðuneytisins. Aðalheiður segir engar tímasetningar hafa verið settar á frekari framvindu málsins á fundinum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.