Seyðfirðingar sýna Eyþóri samstöðu eftir brunann: Endurreisum Láruna!
Bæjarbúar á Seyðisfirði hafa boðað til samstöðu- og hugmyndafundar í félagsheimilinu Herðubreið annað kvöld eftir að veitingastaðurinn Kaffi Lára brann í gærkvöldi.
Boðað er til fundarins undir yfirskriftinni „endurreisum Láruna“ í bíósalnum í Herðubreið annað kvöld klukkan 18:00. Það verður til sölu matur og drykkur, söngvakeppnin verður sýnd á tjaldinu og „uppákomur í anda Lárunnar.“ Samskota og hugmyndabanki verða á staðnum.
Með þessu vilja bæjarbúar sýna Eyþóri Þórissyni, veitingamanni á Lárunni, samhug í verki. Mikið tjón varð í gær þegar öldurhúsið, sem var í gömlu timburhúsi í hjarta bæjarins, brann. Staðurinn hefur árum saman verið vinsæll samkomustaður Seyðfirðinga og gesta þeirra.