Seyðfirðingar vilja stytta skólaárið
Fræðslunefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar vill að skoðaðir verði möguleikar á að stytta skólaárið um viku í hvorn enda til að spara í rekstri grunnskólans. Einnig er lagt til að skoðaðir verði möguleikar í hagræðingu skólamötuneytisins.
Þetta kemur fram í bókun frá síðasta fundi nefndarinnar. Þar er lagt að hagrætt verði eins og kostur er í mötuneytinu því það sé ekki lögboðið verkefni sveitarfélagsins. Aðeins verði hægt að skrá sig í mat fyrir eina önn og þá allar máltíðir sem í boði eru. Nefndin telur eðlilegt að endurskoða forsendur fyrir rekstri mötuneytisins verði mikil afföll á kaupum á skólamáltíðum.
Fræðslunefndin lýsir yfir áhyggjum sínum af hækkunum gjaldskrár fyrir barnafjölskyldur en spara þarf verulega í rekstri Seyðisfjarðarkaupstaðar. Til greina þykir koma að skólaárið verði stytt um viki í þeim tilgangi.
Á Seyðisfirði gleðjast menn hins vegar yfir því að bæta þurfi við starfskröftum á leikskólann vegna fjölgunar barna.