Söfnin biðla til góðgerðarfélaga um stuðning við að koma upp lyftu

safnahus_egs_0008_web.jpg
Söfnin þrjú í Safnahúsinu á Egilsstöðum hafa biðlað til góðgerðarfélaga á svæðinu um stuðning við að koma upp lyftu til að flytja gesti á milli hæða. Aðeins er snarbrattur stigi upp á þriðju hæðina þar sem Bókasafn Héraðsbúa er til húsa.

„Erindi okkar sem skrifum þetta bréf er að fara þess á leit við þig og það félag sem þú ert í forsvari fyrir að athuga hvort einhver flötur sé á því að félagði leggi Safnahúsinu lið með söfnun fjármuna eða með öðrum hætti sem líklegur er til að koma hreyfingu á að bætt verði úr aðgengismálum í Safnahúsinu,“ segir í bréf sem safnstjórar Héraðsskjalsafns Austfirðinga, Bókasafns Héraðsbúa og Minjasafns Austurlands sendu góðgerðarfélögum á svæðinu í lok ágúst.

Safnahúsið var tekið í notkun árið 1995 en hefur aldrei verið klárað. Samkvæmt teikningum á það að vera þrjár burstir með tveimur tengibyggingum en er aðeins ein og hálf burst með tengingu. Samkvæmt teikningum átti lyfta að koma í burstina sem snýr út eftir.

Í bréfinu segir að forstöðumenn stofnananna, bæði núverandi og fyrrverandi, hafi lengi þrýst á um úrbætur en ekki verið brugðist við þeim. Hugmyndir hafa verið uppi um að gera það sem óbyggt er af burst nr. 2 fokhelt og koma lyftu fyrir þar eða reisa lyftustokkinn einan og sér.

Austurfrétt greindi nýverið frá því að dæmi væri um að fólk veigraði sér við að heimsækja bókasafnið því aðgengið væri erfitt. Bréfritarar benda á að brattur og illfær stiginn sé ekki aðeins bagalegur heldur telji þeir aðgengistakmarkanirnar brjóta gegn lögum um almenningsbókasafn þar sem sveitarfélög eru skylduð að tryggja að „allir landsmenn eigi kost á njóta þjónustu almenningsbókasafna.“

Áætlað er að 8-10 þúsund gestir heimsæki bókasafnið árlega. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar