Síðasti dagur Subway

Veitingastaður Subway á Egilsstöðum verður lokað eftir daginn í dag. Framkvæmdastjóri Subway segir að um langa hríð hafi gengið erfiðlega að ráða fólk þar í vinnu.

„Þetta er síðasti dagurinn í dag. Svo göngum við frá og skilum húsnæðinu á föstudag.

Þetta er ekki auðveld ákvörðun en reksturinn hefur verið þungur um hríð. Mestu vandræðum hefur valdið að fá starfsfólk,“ segir Sverrir Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Subway á Íslandi. Staðurinn á Egilsstöðum hefur verið opinn í rúman áratug.

Sverrir segir Subway mánuðum saman hafa auglýst eftir starfsfólki í Egilsstaði með litlum árangri. Inn í það spilar framboð á húsnæði á Egilsstöðum og nágrenni.

„Við höfum verið í basli í nokkra mánuði með að manna staðinn á ársgrundvelli. Sumarið var gott hvað varðar viðskiptin en við þurftum að senda fólk úr Reykjavík til að aðstoða.

Við sjáum töluverðan mun fyrir austan og öðrum stöðum þar sem við erum með staði. Við fáum mun færri svör við auglýsingum. Við höfum fólk sem er tilbúið að flytja austur en fær ekki húsnæði. Við eigum ekkert húsnæði þar og getum því ekki boðið hús með starfinu.“

Við bætist nú að eigandi húsnæðisins að Miðvangi áformaði breytingar. „Við hefðum kannski sett undir okkur hausinn í vetur en fyrst leigusalinn bauð okkur að losna út úr leigusamningum þá lá þetta beinast fyrir.

Við viljum nýta tækifærið og þakka Héraðsbúum og Austfirðingum fyrir ánægjuleg viðskipti síðastliðin 10 ár. Einnig þökkum við því frábæra starfsfólki sem hefur unnið með okkur í gegnum tíðina á Egilsstöðum,“ segir Sverrir Berg.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.