Sigmundur Davíð: Ánægður með jákvæða baráttu Framsóknarmanna

sdg_kjorstadur_27042013_0027_web.jpg
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, er bjartsýnn á að flokkurinn fái fylgi í kosningunum í dag til að geta innleitt breytingar. Hann segist ánægður með hversu jákvæða kosningabaráttu flokksmenn hafi rekið.

„Þetta hefur verið ákaflega skemmtilegur morgun. Við hittumst og fengum okkur pönnukökur og kaffi og röltum síðan yfir á kjörstað í góði veðri. Þetta var hátíðleg og skemmtileg stund.“

Sigmundur og kona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, mættu á kjörstað í Menntaskólanum á Egilsstöðum klukkan ellefu í morgun ásamt hópi stuðningsmanna.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Sigmundur Davíð bjartsýnn að morgni kjördags. „Ég er farinn að leyfa mér að vera bjartsýnn á að við náum þeirri niðurstöðu að við getum innleitt hér breytingar eftir kosningar.“

Hann notaði tækifæri til að hrósa stuðningsmönnum sínum fyrir kosningabaráttuna. „Hún hefur verið óvenjuleg og hörð á köflum. Að miklu leyti hefur hún snúist um Framsóknarflokkinn og stefnu hans en fyrir vikið er athyglin á okkur.

Ég er sérstaklega ánægður með að framsóknarmenn hafa haldið sig við að vera málefnalegir og jákvæðir. Það hefur meira að segja endurspeglað sig tölfræðilega.

Þeir hafa haldið sig við að útskýra eigin málstað eftir fremsta megni fremur en að hnýta í andstæðingana. Það hefur verið gott að upplifa.“

Dagurinn er strembinn hjá Sigmundi sem kom með fyrsta flugi frá Reykjavík í morgun. „Ég fer hugsanlega á Akureyri núna en síðan þarf ég að skila mér til Reykjavíkur í kvöld og mæta í viðtöl í sjónvarpsal. Ég á síðan von á að ég nái að líta við á kosningaskrifstofum einhvern tíman í nótt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar