Sigmundur Davíð áfram í Norðausturkjördæmi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, verður áfram í framboði fyrir flokkinn í Norðausturkjördæmi. Unnið er að uppstillingu hjá flokknum.Í svari við fyrirspurn Vikublaðsins staðfesti Hannes Karlsson, framkvæmdastjóri Miðflokksins, að Sigmundur Davíð verði áfram í oddvitasæti listans. Uppstillingarnefnd flokksins er að störfum og von er á niðurstöðum eftir helgi.
Sigmundur Davíð tók fyrst sæti í Norðausturkjördæmi árið 2013 og varð forsætisráðherra í kjölfarið. Hann sat þá fyrir Framsóknarflokkinn. Það gerði það fram til 2017 að hann stofnaði Miðflokkinn.
Austurfrétt og Vikublaðið hafa undanfarna daga unnið að því í sameiningu að ná í þingmenn Norðausturkjördæmisins með fyrirspurnir um hvort þeir hyggist halda áfram og um ástandið í stjórnmálunum.
Ekki hefur enn náðst í Sigmund Davíð, Jakob Frímann Magnússon, Ingibjörgu Isaksen, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur eða Berglindi Ósk Guðmundsdóttur. Berlindi gaf þó út í gærkvöldi á Facebook að hún sæktist eftir endurkjöri.
Landshlutaráð Viðreisnar í Norðausturkjördæmi fundaði í gærkvöldi og staðfesti að stillt yrði upp á lista flokksins í kjördæminu. Þar var jafnframt valið í uppstillingarnefnd sem hefur hafið störf.
Þá staðfesti Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar sem bauð fram í Reykjavík í síðustu kosningum, að hreyfingin stefndi að framboði í öllum kjördæmum í ár.