Sigurgeir safnaði 1,1 milljón fyrir Píeta samtökin með sjósundsafreki sínu

Austfirðingar og aðrir landsmenn sýndu sannarlega lit þegar sundkappinn Sigurgeir Svanbergsson synti við krefjandi aðstæður í síðasta mánuði frá Reyðarfirði til  Eskifjarðar til að safna fjármunum fyrir Píeta samtökin. Alls lét fólk 1,1 milljón króna af hendi rakna til samtakanna.

Sund Sigurgeirs, sem velþekktur er fyrir mikinn áhuga sinn á sjósundi um margra ára skeið, vakti mikla athygli í byrjun síðasta mánaðar enda var hann þá að reyna það sem átti að vera fjögurra stunda sjósund um hávetur þegar sjávarhiti var nálægt frostmarki. Það gerði hann í þeim eina tilgangi að safna fé til að rétta þeim hjálparhönd er glíma við hugsanir um sjálfsvíg eða sjálfsskaða en það er einmitt megin tilgangur Píeta samtakanna að aðstoða alla í þeirri stöðu.

Sundið reyndist, þegar til kom, öllu erfiðara en hann bjóst sjálfur við enda tók það hann hartnær sex klukkustundir að ljúka sundinu eða tveimur klukkustundum lengur en gert var ráð fyrir í upphafi. Öldugangur reyndist mun meiri en útlit var fyrir, sjávarkuldinn nísti harðar en hann átti von á og líklega hjálpaði ekki til að hann var líka að draga sinn betri helming á kajak alla leiðina á eftir sér.

Allt gekk þó upp á endanum og gafst fólki tækifæri til að gefa í söfnunina í vel rúma viku eftir að sundinu sjálfu lauk. Austurfrétt forvitnaðist um hverju söfnun Sigurgeirs hefði á endanum náð og fengust þær upplýsingar hjá Ellen Calmon, framkvæmdastýru samtakanna, að um 1,1 milljón króna hefðu skilað sér.

Lengst til hægri sést glitta í Sigurgeir á sundi sínu en hann dró kvinnu sína á kajak alla leiðina fyrir utan að eiga við mótöldur og hitastig nálægt frostmarki. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.