Síldarvinnslan ekki stoppað síðan fyrsti farmurinn kom

Síldarvertíðin 2024 fer vel af stað hjá austfirsku útgerðunum og er ágæt veiði úti fyrir Héraðsflóa. Stutt hlé verður tekið yfir helgina hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað eftir að lokið verður við að vinna afla sem Beitir kom með í gærmorgunn.

Fyrsti síldarfarmurinn á þessari vertíð kom til Vestmannaeyja í lok síðustu viku með Gullbergi. Hins vegar kom Hákon EA með fyrsta farminn til Austfjarða aðfaranótt laugardags þegar skipið færði um 500 tonn til Neskaupstaðar.

Skipið kom aftur á miðvikudag með um 800 tonn en áður hafði Börkur fært um 500 tonn til hafnar. Í gærmorgun kom Beitir með 800 tonn. Verið er að ljúka við að landa þeim afla.

„Þetta fer ljómandi vel af stað. Það hefur ekkert stöðug vinnsla og ekkert stoppað síðan fyrsti farmurinn kom. Við stýrum saman veiðum og vinnslu. Það verður frí í vinnslunni um helgina og síðan fer þetta aftur af stað,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni.

Hann segir síldina líta vel út og bjartsýni á stöðu markaða. Skipin þurfa ekki langt eftir síldinni, hún er út af Héraðsflóa og þar norður eftir. Norsk-íslenska síldin er uppistaðan í aflanum en íslenska síldin að meðaltali um 10% hans. Önnur austfirsk skip virðast ýmist vera að landa sínum fyrstu förmum eða vera að halda til síldveiða.

Leitað að makríl síðustu dagana í ágúst


Verulega dró úr makrílveiðum eftir 20. ágúst þótt áfram hafi borist stöku farmur til lands. Skipin vörðu nokkrum dögum í leit, fóru meðal annars yfir Smuguna og sunnarlega í hana, en með litlum árangri. Grétar segir makrílvertíðinni ekki formlega lokið, útgerðirnar haldi áfram möguleikanum opnum ef fréttir berist af fiski á ferðinni þar sem hægt sé að ná honum og bendir á að áður hafi makríll verið veiddur út september.

„Makríl vertíðin gekk þokkalega hjá Síldarvinnslunni. Það var stöðug vinnsla frá því farið var af stað þar til henni lauk. Það sást þó ekki alltaf mikið af fiski, enda hegðar makríllinn sér þannig, hann fer á eftir æti. Það eina sem er öruggt er að makrílveiðin er aldrei eins frá ári til árs.“

Um þriðjungur kvótans eftir


Samkvæmt tölum úr gagnagrunni Fiskistofu er búið að veiða tæplega 87.000 tonn af 127.000 tonna kvóta. Það þýðir að um 40.000 tonn eða tæpur þriðjungur er eftir af kvótanum.

Út úr tölunum má einnig lesa að skipum Síldarvinnslunnar hafi gengið vel í sumar, þau eiga um 3.000 tonn eftir af sínum kvóta. Þau eru í veiðisamstarfi við skip Samherja sem eiga um 4.000 tonn eftir. Skip Brims, sem landa á Vopnafirði, eiga um 7.200 tonn eftir. Þau hafa verið í veiðisamstarfi við Eskju sem á 5.000 tonn eftir. Þá á Hoffellið frá Fáskrúðsfirði um 1.700 tonn eftir en skipið er nýkomið inn úr síðustu veiðiferð.

Hvað verður heimilt að geyma mikinn makrílkvóta?


Samkvæmt reglugerð um veiðar á makríl er heimilt að flytja allt að 15% af óveiddum kvóta yfir á næsta ár. Fordæmi eru fyrir því að sú geymsluheimild sé aukin, slíkt var til dæmis gert fyrir tæpum áratug fyrst eftir viðskiptabann við Rússland vegna innrásarinnar á Krímskaga. Á Alþingi haustið 2022 sagðist þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, í svari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vilja bíða þar til makrílveiðum væri að fullu lokið í október með að taka ákvörðun um hvort heimildin yrði aukin.

Makríll er deilistofn sem þjóðirnar við Norður-Atlantshaf hafa ekki samið um. Íslenskir útgerðarmenn hafa þar einkum bent á að samningsvilja skorti af hálfu Norðmanna. Af þessum sökum hefur verið lögð áhersla á að veiða makrílinn innan íslensku lögsögunnar til að sýna fram á veiðireynslu. Lauslega reiknað hafa um 61.000 tonn eða 70% makrílaflans sumarið 2024 fengist innan íslensku lögsögunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar