Síldarvinnslan vill hagræða eftir dapran ársfjórðungi
Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir að leita þurfi leiða til að hagræða í rekstri félagsins eftir tap á öðrum ársfjórðungi. Það skýrist af loðnubresti, lækkandi verði á kolmunnaafurðum og vandræðum á bolfiskvinnslu í Grindavík. Útlitið er þó gott fyrir seinni hluta ársins með makríl og síld.Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síldarvinnslan seldi frá sér í gær. Tap á öðrum ársfjórðungi var rúmar 260 milljónir króna en þrátt fyrir það er hagnaður á fyrri helmingi ársins tæpir 1,3 milljarðar króna.
Tekjusamdráttur á ársfjórðungnum, samanborið við sama tímabil í fyrra, nemur 24,2%. Í tilkynningunni segir að tekjusamdrátturinn skýrist af því að nær engar loðnuafurðir hafi verið seldar á tímabilinu vegna loðnubrests í upphafi árs og atburða sem rekja megi til jarðhræringanna við Grindavík.
Óásættanlegt að geta ekki nýtt rafmagnsbúnaðinn
Í skýringum Gunnþórs Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, er reksturinn á ársfjórðungnum, sagður „óviðunandi.“ Afkoman sé undir væntingum þrátt fyrir mikla kolmunnaveiði. Það sé vegna minni nýtingar á mjöli og lýsi, hás hráefnisverðs og aukins orkukostnaðar á verksmiðjum. Verð á mjöli og lýsi hafi lækkað á tímabilinu en hafi síðan farið hækkandi.
„Aukinn orkukostnað má rekja til skerts aðgengis að raforku og aukinnar olíunotkunar verksmiðjanna. Það er óásættanlegt að geta ekki nýtt þá grænu fjárfestingu sem fyrirtækin hafa lagt út í til að lækka kolefnisspor sitt með því að geta nýtt endurnýjanlega orku. Skortur á raforku til fiskimjölsiðnaðarins hefur fært okkur mörg ár aftur í tímann þegar kemur að útblæstri.
Kostnaðarauki við að fara yfir á olíu úr rafmagni er 300 milljónir þar af er kolefnisgjald 100 milljónir á fyrstu 6 mánuði ársins. Deila má um hversu sanngjarn sá skattur er þegar ekki er hægt að fá raforku,“ segir í skýringunum. Fiskimjölsverksmiðjurnar hafa keypt skerðanlega raforku en lokað var fyrir sölu á henni frá janúar og fram í maí vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum.
„Verð á erlendum mörkuðum tekur ekki mið af verðbólgu og kostnaðarhækkunum á Íslandi. Því þarf að leita leiða til að minnka kostnað í okkar rekstri,“ segir þar enn fremur.
Gott útlit fyrir haustið
Í Grindavík hefur verið hökt á rekstrinum vegna eldgosa og hættu á þeim. Saltfiskvinnslan hefur verið flutt til Helguvíkur. Í Grindavík fór vinnsla af stað í maí með minna sniði en áður. Vonir eru bundnar við að hægt verði að nýta bolfiskvinnslunar þar á nýju kvótaári.
Makrílvertíðin í sumar hefur gengið vel og meira framleitt í frystihúsinu í Neskaupstað en fyrir ári. Markaðir eru sagðir sterkir og verð hærri. Útlitið er einnig gott fyrir síldarvertíðina sem tekur við eftir makrílinn. Þótt kvótinn sé minni eru líkur á að meira verði unnið til manneldis. „Almennt er þokkalegt útlit á okkar helstu mörkuðum og eftirspurn góð. Verð hafa verið að styrkjast,“ segir Gunnþór. Þess vegna er áætlun um afkomu ársins óbreytt.