Sjá samlegðaráhrif í kaupum á Rafveitu Reyðarfjarðar

Stjórnendur bæði Rarik og Orkusölunnar segjast sjá möguleika í samlegðaráhrifum verði af kaupum fyrirtækjanna á Rafveitu Reyðarfjarðar. Frumkvæði að viðræðum kom frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

„Frumkvæðið að viðræðum um kaup Rarik á Rafveitu Reyðarfjarðar kemur ekki frá Rarik. Rarik hefur hins vegar verið reiðubúið til að ganga til viðræðna um kaup, ef það væri til hagsbóta fyrir báða aðila,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, sem staðfesti að frumkvæðið hefði komið frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

Boðað hefur verið til íbúafundar á Reyðarfirði í kvöld um fyrirhugaða sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar til annars vegar Rarik, hins vegar Orkusölunnar. Á fundi bæjarstjórnar á fimmtudagskvöld kom fram að Rarik væri tilbúið að greiða 440 milljónir fyrir dreifikerfi og spennistöðvar Rafveitunnar en Orkusalan 130 milljónir fyrir raforkuviðskiptin auk rafstöðvarinnar og stíflu í Búðarár.

Tryggvi segir augljós samlegðaráhrif við kaup á veitunni því Rarik reki dreifikerfi raforku á öllu Austurlandi nema Reyðarfirði. Það hafi þjónað rafveitunni varðandi truflanir og fleira mörg undanfarin ár.

Telur lausnina farsæla fyrir Fjarðabyggð

Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir áhuga Orkusölunnar tilkominn því sveitarfélagið treysti sér ekki lengur til að reka Rafveituna því viðbúið sé að kostnaður við hana muni aukast á næstunni. Að auki geri snúið regluverk og auknar kröfur í rekstrarumhverfi, samkeppni og tæknilegum lausnum sveitarfélaginu erfitt fyrir að reka veituna áfram.

„Orkusalan hefur til staðar alla þá innviði sem þarf til að mæta þessum kröfum auk þess að vera með starfsemi og rekstur virkjana á svæðinu. Starfsemin fellur því vel að rekstri Orkusölunnar og mun án efa verða farsæl lausn fyrir sveitarfélagið.“

Góður rekstur síðustu ár

Íbúar hafa mótmælt fyrirhugaðri sölu Rafveitunnar. Rekstur hennar hefur gengið vel síðustu ár, þótt bæjarfulltrúar hafi varað við að blikur séu á lofti í framtíðinni.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2018 skilaði Rafveitan 15,6 milljóna afgangi eftir skatta í fyrra og 11,6 milljónum árið áður. Gert er ráð fyrir áþekkum afgangi í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir komandi ár.

Bent hefur verið á að Rafveitan framleiði aðeins brot þess rafmagns sem hún selji sjálf en kaupi megnið á uppboðsmarkaði. Í ársreikningnum kemur fram að árið 2018 hafi rafmagn verið selt fyrir 293,6 milljónir, nokkru meira en árið áður en keypt fyrir tæpar 183 milljónir sem sömuleiðis er nokkur hækkun. Veltufé frá rekstri var 33,5 milljónir í fyrra en handbært fé í árslok ekki nema 2,8 milljónir.

Eignir Rafveitunnar eru metnar ár 290 milljónir, vegur þar hæst veitukerfi á 132 milljónir en kröfur á tengda aðila eru um 85 milljónir. Skuldir eru 53,7 milljónir. Launakostnaður jókst verulega milli áranna úr 2017, úr 11,5 í 18 milljónir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.