Sjaldséð fluga fannst á Jökuldal

Flugutegund úr sunnanverðri Evrópu kom óvænt fram á Jökuldal í byrjun mánaðarins. Tæpur áratugur er síðan slík fluga fannst síðast á Norðurlöndum. Vísbendingar eru um að stofninn sé óvenju stór í ár.

Flugan heitir á latnesku Aeshna affinis eða Southern migrant hawker eða Blue-eyed hawker. Um er að ræða drekaflugutegund sem finnst víða í Suður-Evrópu, einkum í löndunum við Miðjarðarhaf, í Norður-Afríku og austur yfir til Kína. Búsvæði hennar hefur hins vegar stundum stækkað og hún sótt norðar á bóginn með hlýnandi loftslagi.

Flugan fannst á Brú á Jökuldal í byrjun verslunarmannahelgarinnar og var henni komið í hendurnar á Páli Benediktssyni á Hákonarstöðum sem kannaði nánar uppruna flugunnar með aðstoð tengdasonar síns sem er líffræðingur.

Sækja norður í ár

Það var síðan Magnus Billqvist, drekaflugusérfræðingur, sem greindi fluguna en hann fer meðal annars fyrir Sænska drekaflugufélaginu. Þar í landi var tilkynnt um slíka flugu í sumar en fundurinn mun ekki vera staðfestur. Síðast sást flugan þar árið 2011. Hún hefur aldrei sést í Noregi og aðeins einu sinni í Finnlandi, árið 2007. Í Danmörku hefur hún örsjaldan komið fram .

Flugan fór víða sumarið 2010 og náði þá fótfestu á Bretlandseyjum. Miklir hitar hafa verið í Evrópu í sumar og samkvæmt upplýsingum frá Billqvist virðist flugan hafa fært sig upp á skaftið í löndum eins og Hollandi, Þýskalandi og Póllandi. Fyllri upplýsingar liggja þó ekki fyrir fyrr en í lok sumars.

Bláa flugan

Alls eru þekktar um 2.500 tegundir af drekaflugum í heiminum. Stærsta tegundin hefur 16 sm vænghaf en sú minnsta 20 mm. Flugan sem fannst á Jökuldal var um 10 sm að lengd en tegundin er í hópi smágerðari drekaflugna. Til eru mörg litaafbrigði af drekaflugum en eins og enska heitið ber með sér er karldýr austfirsku flugunnar með blá augu og á búk, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Utan drekaflugunnar hafa allnokkrir Austfirðingar orðið varir við grænleita flugu með fjórum vængjum. Þar er á ferðinni gullglyrna. Slíkar flugur hafa af og til komið til landsins sem flækingar en óvenju mikið virðist af þeim á svæðinu í ár.

Drekaflugan sem fannst á Jökuldal. Mynd: Páll Benediktsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar