Sjálfstæðisflokkur fær forseta bæjarstjórnar og formann byggðaráðs

Nýr málefnasamningur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerir ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fái bæði forseta bæjarstjórnar og formann byggðaráðs í Múlaþingi. Framsóknarflokkur fær aftur á móti formennsku í nýju umhverfis- og framkvæmdaráði. Björn Ingimarsson verður áfram bæjarstjóri.

Nú stendur yfir blaðamannafundur þar sem þeir Gauti Jóhannesson oddviti Sjálfstæðisflokksins og Stefán Bogi Sveinsson oddvitit Framsóknarflokksins kynna málefnasamninginn.

Fyrir utan fyrrgreind embætti mun Sjálfstæðisflokkurinn fá formennsku í nýju fjölskylduráði.

Töluverðar stjórnkerfisbreytingar fylgja sameiningunni og verða nefndir og ráð mun færri en áður hefur tíðkast, en munu funda tíðar og fara með aukin verkefni, að því er kemur fram í málefnasamningnum.


Stjórnsýsla í öllum byggðakjörnum


Í meirihlutasamkomulaginnu er komið víða við. Áhersla er lögð á að byggja upp stjórnsýslu hins nýja sveitarfélags með starfsemi í öllum byggðakjörnum, ná fram sérhæfingu starfsfólks, samlegð í rekstri og betri nýtingu fjármuna.

Hefja á vinnu við nýtt aðalskipulag og húsnæðisáætlun auk þess sem þrýst verði á um samgöngubætur, uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og að fé verði veitt til hafnaframkvæmda.

Boðað er að stutt verði við uppbyggingu fiskeldis í sveitarfélaginu og einnig að sveitarfélagið geti boðið öllum börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavist. Í því skyni verði unnið að staðarvali og hönnun nýs leikskóla á Egilsstöðum.

Í niðurlagi samkomulagsins er lögð áhersla á ábyrgð kjörinna fulltrúa þegar kemur að mótun hefða og venja í nýju stjórnkerfi og því heitið að lögð verði áhersla á góða samvinnu allra fulltrúa í sveitarstjórn.

Fram kemur að stefnt sé að því að semja við Björn Ingimarsson, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, um að taka að sér starf sveitarstjóra í nýju sveitarfélagi út kjörtímabilið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar