Sjúklingar fluttir til og frá FSN í fylgd snjóblásara

nesk_jan12_web.jpg
Björgunarsveitin Gerpir ferjaði í dag þrjá sjúklinga frá Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað yfir á Eskifjörð í fylgd snjóblásara og fór með aðra þrjá til baka. Birgðastaðan á sjúkrahúsinu er enn ágæt þrátt fyrir þriggja daga ófærð yfir Oddsskarð. Nemendur Verkmenntaskólans sem ekki hafa komist í skólann nálgast námsefni í gegnum fjarkennsluvef.

„Við höfum verið í vandræðum með að koma mönnum á vaktir hjá okkur, þeim sem búa á Norðfirði. Einn var til dæmis búinn að vera á stöðinni á Hrauni frá því á sunnudagskvöld,“ sagði Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð í samtali við Austurfrétt í dag en slökkviliðið sér einnig um sjúkraflutninga í Fjarðabyggð. 

Bækistöð þess er á Hrauni við álverslóðina í Reyðarfirði og eftir því sem Austurfrétt kemst næst komst starfsmaðurinn umræddi heim til sín seinni partinn í dag.

Engin teljandi vandræði á FSN

Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri fjórðungssjúkrahússins, segir að ekki hafi hlotist nein „teljandi vandræði“ af lokuninni en „einhver óþægindi.“

Hann segir lyfjabirgðir nægar en öryggisbirgðir séu til nokkurra daga. Pantanir á lyfjum séu þó í gangi og á leiðinni. Matarbirgðir eru einnig nægar en þó fari að vanta ferskvöru svo sem mjólk, grænmeti og ávexti eftir þriðja dag. Þó ekki alvarlega fyrr en eftir morgundaginn.

Konu var hjálpað yfir Oddsskarðið í gær en hún átti von á barni innan skamms tíma. Valdimar segir að forsvarsmenn sjúkrahússins ásamt bæjarstjóra Fjarðabyggðar hafi verið í sambandi við Vegagerðina, mokstursaðila og björgunarsveitina um að í bráðatilfellum verði fólki hjálpað yfir með einhverjum hætti. Meðal þeirra sem fóru yfir með björgunarsveitinni í dag var kona á leið í keisaraskurð.

Mikið álag á sjúkrahúsinu vegna flensu

Breyta hefur þurft vinnufyrirkomulagi á sjúkrahúsinu þar sem starfsmenn, búsettir sunnan Oddsskarðs, hafa ekki komist til vinnu. Einhverjar innlagnir hafa frestast, sjúklingar ekki komist í rannsóknir eða pantaða tíma og eins hefur ekki verið hægt að útskrifa sjúklinga.

Valdimar bætir við að mikið álag hafi verið á sjúkrahúsinu að undanförnu því ofan á venjulega starfsemi hafi bæst flensa sem bæði starfsfólk og sjúklingar hafa veikst af. 

Þá komu tveir erlendis sérfræðingar, sem eiga að undirbúa uppsetningu nýs tölvusneiðmyndatækis, til Austurlands í morgun. Þeir bíða þess ásamt umboðsmanni sínum að opnað verði yfir Oddsskarðið.

Nemendur í bóknámi nálgast efnið á netinu

Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, áfangastjóri Verkmenntaskóla Austurlands, segir að um þrjátíu krakkar sem ferðist með almenningssamgöngum í skólann hafi ekki mætt. Þeir sem eru á heimavistinni voru hins vegar mættir áður en ófært varð.

Nemendur í bóknámi hafa getað nálgast glærur og annað efni í gegnum Kennsluvefur.is en námsefni skólans er hýst þar. „Þetta er þó öðruvísi í verklegri kennslu þar sem að nemendur geta ekki unnið það upp heima sem gert er í tímunum,“ segir Þorbjörg.

Hún segir að tveir kennarar hafi ekki komist til vinnu i´dag. Í þeim tilfellum hlaupi aðrir kennarar í skarðið eða kennsla felld niður.

Þá hefur leikstjóri, sem vinnur með leiklistarfélagi skólans að uppsetningu söngleiksins Grease, ekki getað mætt eftir helgina. Þorbjörg segir það hafa sett smá strik í æfingaskipulagið en stefnt er að frumsýningu í lok febrúar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar