Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í Norðausturkjördæmi
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests fylgist í Norðausturkjördæmi miðað við greiningu á þjóðarpúlsi Gallup. Hann og Framsóknarflokkurinn fengju þrjá menn ef kosið yrði nú. Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð tapa tveimur þingmönnum hvort.
Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur með 29% en Framsóknarflokkurinn fær 26,3%. Hvor flokkur kæmi þremur mönnum á þing miðað við þessi úrslit. Báðir flokkarnir eru með álíka fylgi og í þjóðarpúlsi sem gerður var í desember.
Björt framtíð tekur undir sig stökk, mælist með 15,9% fylgi en það var um 8% síðast. Flokkurinn kæmi að tveimur mönnum en annar þeirra væri jöfnunarþingmaður. Þriðji þingmaður Framsóknarflokksins er síðasti kjördæmakjörni þingmaðurinn.
Fylgið hefur hrunið af ríkisstjórnarflokkunum Samfylkingu og Vinstrihreyfingunni-grænu framboði. Samfylkingin væri með 11,6% og VG 11,5%. Fyrir ári var VG með 22% fylgi í kjördæminu. Hvor flokkur kæmi að einum þingmanni í kjördæminu.
Hægri grænir eru með 1,8% fylgi í kjördæminu en önnur framboð svo sem Dögun, Píratar og Samstaða mælast með um 1%.
Skoðanakönnunin var gerð í janúarmánuði af Capacent Gallup. Heildarfjöldi svarenda í Norðausturkjördæmi var 736 manns. Hlutfall þeirra sem nefndu flokk er 76,3%, 11,5% sögðust ekki myndu kjósa eða skila auðu og 12,3% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara.