Sjötta smitið staðfest á Austurlandi
Eitt nýtt covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi. Heldur hefur fækkað í hópi þeirra sem eru í sóttkví.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarna á Austurlandi í dag.
Með þessu nýjasta smiti eru sex með staðfest smit og þar með talið í einangrun. Nokkuð af sýnum er til rannsóknar og niðurstöðu beðið.
Í sóttkví eru 212 og hefur þeim fækkað um fjóra frá í gær. Í tilkynningunni segir að gera megi ráð fyrir því að hluti þeirra Austfirðinga sem komu heim af skilgreindum áhættusvæðum hafi lokið fjórtán dögum í sóttkví og það skýri fækkunina.