Skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði
„Við getum ekki beðið eftir því að umsóknirnar fari að berast,” segir Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fjarðabyggðar, en sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað leita nú í sameiningu að ungu fólki sem fætt er á árunum 1996 til 2002 til að taka þátt í skapandi starfi í allt að níu vikum í sumar.
„Bæði sveitarfélögin hafa gegnum tíðina ráðið til sín ungmenni í þjónustu yfir sumartímann, þá aðallega í garðyrkju og aðra útivinnu. Í raun má segja að aðeins sé verið að útvíkka það, því þjónusta getur verið svo mikiu fjölbreyttari en svo og því bjóðum við ungu fólki að koma í skapandi þjónustu fyrir sveitarfélögin,” segir Karna, en tíu ungmenni verða tekin inn í verkefnið.
Í fréttatilkynningu segir að störfin séu hugsuð fyrir einstaklinga og hópa sem hafi áhuga á að efla listsköpun sína og um leið glæða sveitarfélögin lífi með listrænum og skapandi uppákomum. Starfið henti ungmennum með fjölbreyttan áhuga, til dæmis á sviðlistum, kvikmyndagerð, myndlist eða tónlist.
Starfið verði mótað að áhugasviði þátttakenda, en verkefnin þurfi að uppfylla ákveðna skapandi þjónustu við samfélagið, til að mynda með pop-up viðburðum við mismunandi tækifæri bæði á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð. Verkefnastjóri hópsins verður Emelía Antonsdóttir Crivello.
Vilja nýta skapandi kraftinn í heimabyggð
„Eins og áður segir hafa grunnskólanemar fengið störf hjá sveitarfélögunum, en nú viljum við mæta þeim hópi sem búinn er með grunnskóla og hugsanlega byrjaður í framhaldsskóla, háskóla eða jafnvel listnámi. Við viljum sýna þeim ungmennum að við séum áhugasöm um hvað þau eru að gera og að við viljum nýta krafta þeirra í heimabyggð. Þá er það ekki síður mikilvægt að sýna þeim sem hafa sótt skapandi námskeið fyrir grunnskólabörn hægt sé að taka skapandi vinnu lengra og jafnvel hafa af henni lífsviðurværi, en þetta væru góðar fyrirmyndir fyrir þau ungmenni.”
Skapandi starf er landamæralaust
Karna segir það verulega ánægjulegt að Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað sameinist um þetta verkefni. „Það er frábært að þessi tvö stóru sveitarfélög vinni saman að svo flottu verkefni og að ungmennin sjái að við séum ein heild og vinnum saman, en þannig er skapandi starf, alveg landamæralaust. Bæði sveitarfélögin eru að prófa þetta í fyrsta skipti þannig að þetta er allt saman rosalega spennandi og gefandi,” segir Karna sem hvetur alla áhugasama um að sækja um.
Umsækjendur skila inn kynningarbréfi um sjálfan sig og áhugasvið sitt og hugmyndir um verkefni sem hópurinn gæti tekið sér fyrir hendur. Við val á umsækjendum verður tekið tillit til reynslu og raunhæfni umsækjanda, sýnileika og frumleika hugmynda, fjölbreytni, kynjahlutfalls umsækjenda og gæði umsókna. Nánar má lesa um umsóknarferlið og skil umsókna hér.