Skógarnir eru þjóðarauðlind: Margföldum á störfum við skógrækt á næstu árum
Umsvif við skógarhögg og aðra vinnslu tengda skógrækt munu aukast verulega á næstu árum. Fjármagn vantar til að hámarka þá nýtingu og gæði sem hægt er að ná úr austfirskum skógum.
„Við erum að búa til þjóðarauðlind svo við þurfum ekki að sækja gæðavið annað,“ segir Hlynur Gauti Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Héraðs- og Austurlandsskógum í samtali við vikublaðið Austurgluggann.
Í dag starfa um 20 manns við skógarhögg á Austurlandi í verktöku hjá skógarbændum. Árið 2007 var metár í gróðursetningu þegar plantað var milli 1,2-1,4 milljón plantna.
„Þarna verður til gæðaviður í framtíðinni og mjög dýrmætur,“ segir Hlynur sem spáir miklum vexti í greininni á næstu 10-15 árum. Árið 2025 hafi 200 manns beina vinnu af skógrækt. „;Með afleiddum störfum er hæglega hægt að ímynda sér að um 500 manns muni hafa óbeina vinnu við eða með gæðavið sem er framleiddur á Austurlandi.“
Hlynur segir að það séu mörg brýn verkefni nú í gangi sem þola enga bið við að hámarka þá nýtingu og þau gæði sem hægt sé að ná úr skógunum. „Við sjáum fyrir að allt fjármagn sem okkur var skammtað á fjárlögum verður uppurið fyrir sumarið“ segir Hlynur. Hann segist ekki átta sig á því hvað taki við eftir sumarið en vonast þó til þess að ráðmenn „veiti verkefninu aukin lið með því það veita meira fjármagni í skógrækt því það mun margfalda sig þegar fram í sækir.“
Aukin skógrækt er meðal þeirra leiða sem íslensk stjórnvöld hyggjast fara til að standa við alþjóðaskuldbindingar í loftslagsmálum.